Kvótakerfi í fiskveiðum var komið á af nauðsyn. Því miður hefur ekki ennþá tekist að breyta fyrsta bráðabirgðakerfinu í langtímakerfi. En það er hægt og það er gríðarlega mikilvægt að það verði gert.
Nýafstaðin þjóðaratkvæðageiðsla um ákvæði í nýrri stjórnarskrá sýnir að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar vill tryggja þjóðareign á auðlindum. Fólk gerir sér grein fyrir því að yfirráð yfir auðlindum eru mikilvægasta sjálfstæðismál þjóðarinnar. Á þeim hvílir efnahagur okkar og þess vegna þarf bæði að vernda þær og nýta í senn. Munurinn á þjóðareign og ríkiseign er að þjóðareignir er ekki hægt að selja eða veðsetja, heldur aðeins að semja um nýtingarrétt á þeim.