Það leikur allt í höndunum á Viðari Breiðfirði sem verður með myndlistasýningu í GELP krónni á morgun. „Sýningin er tileinkuð listgleðinni. Ég er svo listglaður maður” segir Viðar í samtali við Eyjafréttir.
„Ég ætlaði ekki að vera með neitt á goslokunum nema samsýningu, en svo var ég að labba á Strandveginum og fram hjá GELP krónni og þá keyrði maður fram hjá. Ég tek það fram að þetta var aðkomumaður. Hann var á bíl sem kostaði örugglega tuttugu milljónir en ég sá hvernig honum leið illa, ég fann það bara. Þá fékk ég hugmynd um að mála bara og gera sýningu sem veitir gleði” segir Viðar en sýningin ber nafnið „Þetta er fínt svona”.
„Þetta verður svolítið sérstök sýning. Ransý verður inni í húsinu og svo verða þarna málverk og seglar á Ransý. Þetta verður mikið öðruvísi og mikil gleði” segir Viðar sem verður sömuleiðis með samsýningu ásamt Myndlistafélagi Vestmannaeyja um helgina.
„Svo eftir goslok þá tökum við Ransý „on the road”. Svona óvissuferðir upp á land. Það gæti endað inni í gamalli hlöðu að mála myndir eða gæti líka endað á einhverju tjaldstæði. Það kemur allt í ljós” segir Viðar sem verður einmitt á rúntinum á Ransý í vikunni með listvarning til sýnis.
„Ég vil taka það fram og meina það heilshugar, og af öllu hjarta, að það eru forréttindi að fá að búa á svona stað eins og í Vestmannaeyjum. Innan um allt þetta yndislega fólk og í faðmi þessa fallegu kletta. Það er ekki lítið og það getur maður verið þakklátur fyrir á hverjum degi.”
GELP krónna má finna að Strandvegi 69 og samsýninguna í Hvíta húsinu, Strandvegi 50.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst