Matthilda Tórshamar verður með sýningu á saumuðum myndum á bæjarhátíðinni Menningardögum í Fuglafirði í Færeyjum helgina 1. til 3. september. Fuglafjörður er staðsettur á austurströnd Eysturoy og eru íbúar bæjarins um það bil 1800 manns. Mattilda bjó í Fuglafirði frá 4 ára aldri þar til hún flutti til Vestmannaeyja 25 ára gömul þegar hún fann stóru ástina í lífi sínu.
„Þetta er ekki útsaumur heldur er þetta eitthvað sem heitir „fabric collage” á ensku en ég hef ekki ennþá fundið íslenska orðið fyrir þetta. Ég sá þetta í fyrsta skiptið í Færeyjum 2018 þegar það var ein að sýna og mig langaði svo rosalega að prófa þetta. Síðan þegar mér bauðst aðstæða í Hvíta húsinu þá fór þetta af stað hjá mér. Það hefur algjörlega bjargað mér að hafa eitthvað að gera, þar sem ég má ekki vinna, og bara að fá að hitta fólk og umgangast það. Ég mæti þangað nánast á hverjum degi og ef fólk veit ekki hvar ég er þá veit það samt hvar ég er” segir Matthilda.
Vinnur nær eingöngu úr endurnýttu
Matthilda hefur aðallega saumað nærumhverfið sitt eins og byggingar og náttúrugersemar í Eyjum, gamla hverfið hennar í Fuglafirði og kennileiti á Seyðisfirði, þaðan sem móðir hennar var. Um helgina verða til sýnis tíu myndir og allar frá Færeyjum.
„Ég vinn nær eingöngu úr endurnýttu og stundum eru fötin hjá heimilisfólkinu í hættu ef ég sé að mér vantar akkúrat þennan lit. Þá getur stundum eitthvað horfið. Einhvern tímann tók ég skyrtu af kallinum og hann er ekki ennþá búinn að fatta að hún sé farin” segir hún og hlær.
Sýningin verður í gamalli matvöruverslun sem ber heitið Piddasahandil. Þangað fór Matthilda sem barn að versla í matinn með móður sinni. „Það er allt gamalt þarna inni og það eru ennþá gömlu upprunalegu innréttingarnar. Ég man þegar ég fór með mömmu þangað og það var bara hveitið var í skúffunum og sykurinn í þessari skúffu.”
Ásamt því að vera að sýna út í Færeyjum þá verður Matthilda sömuleiðis með á sýningunni Konur í sjávarútvegi á sérstakri opnunarhátíð MATEY í Eldheimum þann 20. september.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst