Ljósmyndari: Juliette Rowland
Það hefur ekki farið fram hjá Eyjamönnum síðastliðnar vikur að hópur tökufólks hefur verið hér í Eyjum. Um eru að ræða kvikmyndafyrirtækið Glassriver, en þau hafa verið í tökum vegna þáttaseríru sem kallast Friðarhöfn og kemur út á næsta ári.
Glassriver var stofnað árið 2016 með því markmiði að framleiða vandað íslenskt sjónvarpsefni. Síðan þá hefur fyrirtækið verið leiðandi á því sviði. Frá stofnun hefur fyrirtækið skapað um 30 leiknar sjónvarpsseríur og sannað sig á alþjóðavettvangi með sterkar sögur og einstaka íslenska náttúru í bakgrunni. Á þessu ári hefur Glassriver frumsýnt seríur eins og HÚSÓ á RÚV í byrjun árs, SKVÍS yfir páska á Sjónvarpi Símans, og nú ÚTILEGA og SVÖRTU SANDAR. Sú síðastnefnda er önnur sería af vinsælli glæpaþáttaröð sem gerist á suðurlandi og hefur fengið góðar viðtökur um allan heim. Fyrsta sería hefur nú verið seld til yfir 140 landa.
Friðarhöfn – Spennandi glæpasaga frá Vestmannaeyjum
Friðarhöfn er ný glæpaþáttaröð frá Glassriver sem gerist í Vestmannaeyjum. Flestar senur eru teknar upp í Eyjum með 70 manna tökuliði, bæði íslensku og portúgölsku. Einnig fóru nokkrar tökur fram í Portúgal þar sem sagan tengist þaðan. Þegar portúgölsk fiskverkakona og móðir finnst látin í Vestmannaeyjum fyllist samfélagið ótta og eyjaskeggjar velta fyrir sér hver morðinginn gæti verið. Metnaðargjörn rannsóknarlögreglukona í Reykjavík er kölluð til aðstoðar við rannsóknina í bænum, þar sem hún er fædd og uppalin á eyjunni, en þar þarf hún að horfast í augu við eigin fortíð og taka erfiðar ákvarðanir þegar hún kemst að því að sonur hennar gæti mögulega verið viðriðinn málið.
Leikstjóri seríunnar er Arnór Pálmi Arnarson, sem vakti nýlega athygli fyrir Ráðherran, og í aðalhlutverkum fara Kristín Þóra Haraldsdóttir, Sveinn Ólafur Gunnarsson, og frá Portúgal bætist við hinn ein af þekktari leikkonum þar í landi, Maria João Bastos.
Alþjóðleg dreifing og samstarf
Sjónvarp Símans mun sýna seríuna á Íslandi, en í Portúgal mun ríkissjónvarpsstöðin RTP sjá um sýningar. Alþjóðlegi dreifingaraðilinn About Premium Content hefur tekið að sér sölu þáttanna á heimsvísu. Við teljum að áhorfendur um allan heim muni heillast af þessari sterku frásögn sem fléttar saman menningu og náttúru Vestmannaeyja á einstakan hátt.
Andri Ómarsson, framkvæmdastjóri Glassriver:
Andri Ómarsson framkvæmdarstjóri Glassriver segir það lengi hafa verið draumur að koma með verkefni til Vestmannaeyja, en Andri er sjálfur frá Eyjum og reynir að eigin sögn að dvelja þar eins mikið og hann getur með konu sinni og börnum.
,,Það sem einkar ánægjulegt við þetta, er að að serían gerist í Eyjum og bærinn er ekki notaður sem leiksvið fyrir annan bæ eins og svo oft er gert. Af fenginni reynslu hef ég trú á því að verkefnið muni vera frábær auglýsing fyrir eyjuna okkar. Það er gaman að geta skilið eitthvað eftir sig“
Okkar fólk sem vinnur að verkefninu fer í burtu með ótal góðar minningar og vonum við að bæjarbúar geti geti sagt það sama og verði ánægðir með seríuna. Við vorum svo lánsöm að hafa Tangann sem okkar helstu bækistöðvar og eru allir sammála því að útsýnið þar, spegilslétt höfnin og Heimaklettur drottnandi yfir, er alveg einstakt segir Andri að lokum.
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja:
Við ræddum við Írisi Róbertsdóttur bæjarstjóra Vestmannaeyja og fengum að heyra hvað henni fannst um þetta verkefni og áhrif þess á Vestmannaeyjar.
,,Öll verkefni sem tengjast kvikmyndagerð, stór og smá, þar sem náttúran og fallegt umhverfi Eyjanna er í forgrunni skilar sér í auglýsingu fyrir okkur. Þetta verkefni er mjög stórt og er það jákvætt fyrir „hagkerfi“ okkar Eyjamanna. En það sem þetta verkefni bætir við mörg önnur er að þáttaröðin gerist ekki á óræðnum stað, heldur í Vestmannaeyjum og í þáttunum kemur fram að þar gerist þáttaröðin. Ég tel að sýningin á þáttaröðinni verði mikil bein auglýsing fyrir Vestmannaeyjar og hafi jákvæð áhrif á komu ferðamanna. Það er gríðarlega jákvætt að fá svo verkefni til Eyja. Einnig var tímasetingin á tökunum góð fyrir þá aðila sem eru með gistingu og aðra þjónustu við Glassriver og starfsfólkið, þar sem rólegt er hjá flestum ferðaþjónustuaðilum á þessum árstíma. Vonandi skilar þetta verkefni fleiri svona verkefnum til Eyja.” segir Íris.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst