Síðasta vika var á rólegri nótunum hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum. Eitt fíkniefnamál kom upp en að kvöldi sunnudags fundust fíkniefni á dreng sem er á sautjánda ári en drengurinn hafði komið með Herjólfi sama kvöld. Um var að ræða smáræði af kannabisefnum og telst málið vera upplýst. Þá voru nokkur útköll vegna veðurofsans sem gekk yfir eyjarnar síðastliðinn fimmtudag en engin alvarleg tjón urðu af völdum veðursins.