Gagnrýni er nauðsynleg til að lýðræðið virki. Valdhafar hverju sinni þurfa aðhald, gagnrýni og eftirlit með störfum sínum því enginn er svo fullkominn að hann verðskuldi ekki gagnrýni á störf sín, ákvarðanir og gjörðir. Beinskeytt gagnrýni er því hreinlega nauðsynleg, því flestum er sem betur fer ljóst hver þróun mála verður þar sem gagnrýni er talin óæskileg eða er kveðin í kútin. Mankynssagan geymir ótal dæmi um slíkt og við þurfum ekki að líta langt til að sjá hvaða afleiðingar slíkt hefur í för með sér.
Eyjamenn hafa sem betur fer haft bein í nefinu í gegnum tíðina til að takast hraustlega á um hin ýmsu málefni og menn hefur greint á um leiðir og stefnur í þeim efnum sem oft hafa kostað átök en til allra heilla hefur þetta í gegnum tíðina fært samfélagið fram á við með nokkuð góðum árangri í áranna rás.
Gagnrýni er ekki óþarft nöldur
Á því kjörtímabili sem nú er senn á enda hefur allt í einu orðið einhver breyting á. Gagnrýni er allt í einu af hinu illa og réttmæt gagnrýni virðist allt að því litin hornauga. Sveit skipuðum einhverskonar Varðhundum valdsins hefur tekið sér stöðu á samfélagsmiðlum og er fljót til varnar ef gagnrýni er beint að meirihluta bæjarstjórnar og ákvörðunum hans. Slík gagnrýni er þá oftast afgreidd af Varðhundunum sem neikvæðni eða niðurrif. Ástæðulaust nöldur, án þess að taka efnislega umræðu um málið. Síðan er talað niður til þeirra sem leyfa sér að gagnrýna og svo er kallað eftir því að öll dýrin í skóginum séu vinir og vinni saman án gagnrýni. Það sé rétta leiðin.
Þetta hefur örugglega haft áhrif því ég heyri á fólki að það segist veigra sér við að hafa skoðanir eða láta þær í ljósi, séu þær ekki að skapi valdhafanna, því það muni fá að gjalda skoðanna sinna. Finnst einhverjum að slík staða sé bara í lagi?
Varðhundar á netvappi
Minnihuti bæjarstjórnar hefur, að mínu mati, farið ótrúlega mjúkum höndum um meirihlutann og ákvarðanir hans á líðandi kjörtímabili, þó svo að fjölmörg mál hafi komið upp sem vert hafi verið að fylgja mun fastar eftir en gert hefur verið. Því það er svo sannarlega af nógu að taka í þeim efnum.
Þau skipti sem bæjarfulltúar minnihlutans hafa „leyft“ sér að gagnrýna ákvarðanir, sem hafa klárlega verið gagnrýniverðar, eru Varðhundarnir fljótir að spanngóla og kvarta undan „neikvæðninni“ og „nöldrinu“. Ekki fer mikið fyrir umræðu um málefnin sem gagnrýnd eru heldur reynt að afgreiða gagnrýnina sem óþarft nöldur sem eigi engann rétt á sér.
Færu verkalýðsforingjarnir að verja SA?
Mér hefur þótt merkilegt að sjá að meðal þeirra Varðhunda, sem yfirleitt fyrstir góla til varnar sitjandi meirihluta, skuli vera fólk sem er í forsvari félags sem gæta á hagsmuna og réttinda félagsmanna sinna gagnvart bæjaryfirvöldum. Það er kannski réttara að tala um að það sé stórfurðulegt frekar en merkilegt að verða vitni að slíku.
Sér einhver fyrir sér að Sólveig Anna, Vilhjálmur Birgisson eða Ragnar Þór sitji í startholunum 24/7 með lyklaborðiðí skotstöðu til að kveða þá í kútinn sem leyfa sér að gagnrýna Samtök atvinnulífsins? Ég held afar fáir geti ímyndað sér það en slíkt væri alveg á pari við það sem maður hefur verið að horfa á í Eyjum síðustu misserin.
Sannir leiðtogar hlaupa ekki fyrstir í skjól
Það þarf og á að gagnrýna ákvarðanir valdhafa. Gagnrýni er nauðsynleg og á alltaf rétt á sér og það er þeirra sem kosnir eru að svara fyrir þá gagnrýni sem að þeim er beint. Þeir taka ákvarðanirnar, ekki aðrir. Sannir leiðtogar eru leiðtogar í blíðu jafnt sem stríðu. Í mótbyr sem meðbyr. Sannir leiðtogar sýna sig ekki bara á sólarstundum. Þeir taka vindinn í fangið og höggin á kassann ef þannig viðrar en hlaupa ekki undir þiljur þegar gefur á. Sannir leiðtogar láta ná í sig þegar á móti blæs og erfið mál koma upp. Þeir svara fyrir ákvarðanir sínar en láta ekki embættismenn sitja uppi með að svara fyrir misvitrar ákvarðanir sínar og mistök. Sannir leiðtogar hlaupa ekki í felur þegar sótt er að í þeirri von að Varðhundarnir sjái um að afgreiða gagnrýnina, sem að þeim er beint, sem óþarfa væl og blása hana út af borðinu áður en þeir skríða úr holu sinni fram í dagsljósið á ný.
Þannig eru sannir leiðtogar.
Grímur Gíslason
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst