Óskar Pétur Friðriksson heldur áfram að grúska í ljósmyndasafni sínu og rifja upp gamla tíma í Eyjum. Nú fer hann aftur til ársins 2010 og 2011. Gefum Óskari Pétri orðið:
„Það var í byrjun nóvember 2010 sem hvíthærður selkópur kom fljúgandi hingað til Eyja frá Kópaskeri, en hann hafði skriðið í beituskúr hjá línukörlunum og þótti of lítill til að skilja hann eftir einn í sjónum þarna fyrir norðan.
Norðan-mennirnir redduðu fríu flugi fyrir hann hingað til Eyja. Georg Skæringsson vann á þessum tíma hjá Þekkingasetrinu og þau sáu um fiskasafnið við Heiðarveg. Hann tók á móti kópnum og gekk í foreldrastað og sá um Golla að mestu ásamt Páli Marvin Jónssyni á loftinu hjá Miðstöðinni.
Georg sá um að gefa kópnum að drekka úr pela og gaf honum síld að borða. Golli var fljótur að vaxa og hvítu hárin hurfu af kópnum og hann var að verða fullvaxta selur. Margir komu og litu við hjá Golla og þótti unga fólkinu gaman að skoða kópinn. Golli hafði fylgst vel með Georg í vinnu sinni og lærði hann að sitja. Sennilega eini selurinn í heiminum sem kunni að sitja.
Í janúar 2011 var HM í handbolta haldið erlendis líkt og núna og Íslendingar tóku þátt í mótinu. Fljótlega tóku menn eftir því að Golli hafði náðargáfu þar sem hann gat spáð fyrir úrslitum leikja Íslendinga.
Georg hafði útbúið T-laga skaft og öðru megin var íslenski fáninn en hinu megin var fáni þess lands sem keppt var við og síldar héngu niður úr fánunum. Það þótti öruggur sigur hjá því landi sem Golli át síldina sem hékk niður úr fána þess lands.
Ég mætti til Golla og Gogga til að fylgjast með hvort Þjóðverjar eða Íslendingar myndu vinna í leiknum sem fara átti fram daginn eftir. Í tvígang var reynt á spádómsgáfur Golla og hann borðaði síldina sem hékk niður úr fána Þjóðverja. Nú var nokkuð víst hvort landið myndi vinna leikinn sem fara átti daginn eftir.
Fréttastjóri Fréttablaðsins hringdi í mig, en ég myndaði á þessum tíma fyrir það ágæta blað. Hún spurði mig hvernig spáin hafi farið fyrir leikinn hjá Golla, ég sagði henni hvernig spáinn hefði farið og fékk ég þá þetta svar. ,,Það er ekkert að marka þetta”.
Ekki birtist myndinn af Golla í Fréttablaðinu daginn eftir. Ég held samt að Þjóðverjar hafi sigrað leikinn eins og Golli spáði fyrir um. 5.febrúar 2011 var Golli orðinn það stór að farið var með hann út í Höfðavík og sleppt lausum, eitthvað var hann samt lengi að átta sig á þessu frelsi sínu en loksins fór hann og synti burt frá mannfólkinu.”
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst