Veðurstofa Íslands hefur gefið út gular viðvaranir vegna veðurs á Höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa, Breiðafirði og á Suðausturlandi.
Á Suðurlandi tekur viðvörunin gildi á morgun, 2 mars kl. 12:00 og gildir til kl. 22:00. Í viðvörunarorðum segir: Suðvestan 15-23 m/s og dimm él með lélegu skyggni. Færð getur spillst, einkum á fjallvegum. Varasamt ferðaveður.
Á mánudag:
Vestan og suðvestan 15-23 m/s og éljagangur um morguninn, en dregur síðan talsvert úr vindi og éljum. Hiti nálægt frostmarki. Hægt vaxandi suðaustanátt síðdegis með snjókomu eða slyddu og síðar rigningu sunnantil, en þurrt fyrir norðan fram á kvöld. Hlýnar smám saman.
Á þriðjudag:
Snýst í suðvestan 13-20 m/s með éljum og kólnandi veðri, en styttir upp á Norður- og Austurlandi. Hiti nálægt frostmarki síðdegis og dregur þá heldur úr vindi.
Á miðvikudag:
Hæg suðlæg eða breytileg át og dálítil él, en slydda suðaustanlands um kvöldið. Lengst af bjartviðri á Norður- og Austurlandi. Hiti kringum frostmark.
Á fimmtudag:
Hægviðri og dálítil él á víð og dreif. Frost víða 0 til 5 stig.
Á föstudag:
Norðaustlæg átt og él eða snjókoma austanlands, en annars úrkomulítið. Kólnar í veðri.
Á laugardag:
Útlit fyrir norðanátt með dálítil éljum, en bjartviðri sunnan heiða. Kalt í veðri.
Spá gerð: 01.03.2025 20:08. Gildir til: 08.03.2025 12:00.
Nú síðdegis þokast vaxandi lægð til norðausturs á Grænlandshafi, skil frá henni ganga yfir landið í kvöld og það hlýnar með rigningu í flestum landshlutum.
Á morgun verður lægðin fyrir vestan land og beinir til okkar óstöðugu lofti. Þá gengur í suðvestan 13-23 m/s með dimmum éljum, hvassast í éljahryðjum suðvestantil, en á Norðaustur- og Austurlandi verður vindur hægari og þurrt að mestu. Hiti kringum frostmark.
Líkur eru á að færð spillist sunnan- og vestantil á landinu þegar líður á daginn, einkum á fjallvegum, og ferðalög milli landshluta geta orðið varasöm.
Seint annað kvöld er útlit fyrir vestan storm með áframhaldandi éljagangi á vesturhluta landsins, og aðfaranótt mánudags hvessir einnig á Norðaustur- og Austurlandi.
Á mánudag dregur talsvert úr bæði vindi og ofankomu, en síðdegis ganga næstu skil norður yfir landið með úrkomu í flestum landshlutum.
Spá gerð: 01.03.2025 16:07. Gildir til: 02.03.2025 00:00.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst