Í hádeginu voru Fréttapýramídarnir afhentir við athöfn í Eldheimum að viðstöddu fjölmenni. Þeir eiga sér áratugahefð, hafa alltaf mælst vel fyrir og er gott framlag á fyrstu dögum ársins.
Athöfnin hófst með ræðu Trausta Hjaltasonar, formanns stjórnar Eyjasýnar sem fór yfir gang mála hjá Eyjafréttum á liðnu ári.
Ómar Garðarsson, ritstjóri Eyjafrétta afhendi viðurkenningar og gerði grein fyrir forsendum þeirra. Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri var aðalræðumaður og þakkaði handhöfum vel unnin störf í þágu Vestmannaeyja.
Biggi Gauja
Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þá sem nú fá Fréttapýramídana. Magnús Birgir Guðjónsson, Biggi Gauja eins og við þekkjum hann fékk íþróttahreyfinguna í Vestmannaeyjum í fangið strax við fæðingu og hefur þjónað henni af mikilli elju og krafti.
Birgir er því vel að því kominn að fá Fréttapýramídann fyrir framlag til íþróttamála í Vestmannaeyjum. Verðugur fulltrúi þeirra sem varðað hafa brautina og byggt upp það öfluga íþróttastarf sem er eitt af einkennum Vestmannaeyja. Þess má svo geta að Biggi var í 42 ár í Slökkviliði Vestmannaeyja sem er að mestu sjálfboðaliðastarf.
Það mikilvægasta í skólakerfinu
Hvað er það mikilvægasta í íslensku skólakerfi þessi árin? Kveikjum neistann er framtak ársins 2022 í Vestmannaeyjum. Upphafið er að Hermundur Sigmundsson prófessor við Norska tækni- og vísindaháskólann í Þrándheimi og við Menntun og hugarfar – rannsóknarsetur við Háskóla Íslands fór að ræða við Tryggva okkar Hjaltason um hina bágbornu stöðu drengja í íslenska skólakerfinu.
Þar nefndi Hermundur að hann hefði verið að þróa verkefni sem hann kallaði Kveikjum neistann og byggðu á viðurkenndum vísindum fremstu fræðimanna heims á sviði náms, færniþróunar, áhugahvatar og hugarfars.
Tryggvi er maður athafna og fékk stjórnendur Grunnskólans og bæjaryfirvöld með Írisi Róbertsdóttur bæjarstjóra í broddi fylkingar að borðinu. Skemmst er frá því að segja að Íris tók verkefnið upp á sína arma, eftir að tíu bæjarstjórar höfðu sagt nei við Hermund og þá varð ekki aftur snúið.
Síðan hafa fleiri aðilar bæst í hópinn og má þar nefna Bókasafn Vestmannaeyja sem er einn öflugasti stuðningsaðili verkefnisins.
En það er Grunnskóli Vestmannaeyja sem sér um framkvæmd verkefnisins og skólastjórinn Anna Rós Hallgrímsdóttir er verðugur fulltrúi allra þeirra sem lagst hafa á eitt við að skapa þá umgjörð að Kveikjum neistann sé orðið það mikilvægasta sem verið er að vinna að í íslensku skólakerfi þessi árin.
Eyjamaðurinn með mörg járn í eldinum
Eyjamaðurinn, sem er tæknifræðingur hefur verið bæjartæknifræðingur, bæjarstjóri, skátaforingi, konsúll og formaður Norræna félagsins. Auk þess að hafa átt þátt í að endurreisa Vestmannaeyjar úr öskunni eftir gosið 1973.
Eyjamaður ársins 2022 er Páll Hjaltdal Zóphóníasson. Er þetta í annað skiptið sem Páll er tilnefndur sem Eyjamaður ársins af ritstjórn Eyjafrétta. Fyrra skiptið var árið 2003 en hafi verið ástæða til þess þá er hún ekki síðri núna þegar við m.a. minnumst þess 23. janúar nk. að gos hófst á Heimaey árið 1973. Þá var Páll í framvarðarsveit Vestmannaeyjabæjar sem tókst á við stærsta viðfangsefni sem ein bæjarstjórn hefur fengið í allri Íslandssögunni. Gossprunga opnaðist við bæjardyrnar og þriðjungur bæjarins.
Páll er því vel að því kominn að vera Eyjamaður ársins 2022 ekki síst vegna þess að nú eru rétt 50 ár frá Heimaeyjargosinu. Sjálfur varð hann áttræður á síðasta ári og Teiknistofan fjörtíu ára.
Er Fréttapýramídinn litill þakklætisvottur til Páls, Grunnskólans og Bigga Gauja. Án Bigga og Páls og þeirrar hugsunar sem kveikti neistann í Grunnskólanum væru Vestmannaeyjar mun fátækari.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst