Það var ljúf stemning á tónleikunum í Eldheimum föstudagskvöldið 20. janúar þar sem fjöldi Eyjafólks tróð upp undir stjórn Magnúsar Einarssonar sem hefur látið til sín taka í tónlistarlífi Eyjanna. Voru tónleikarnir einskonar upptaktur að því sem á eftir fylgdi í minningu þess að 50 ár eru liðin frá upphafi Heimaeyjargossins. Vel var mætt og listafólkið fékk hlýjar móttökur.
Seyðfirðingurinn Magnús stjórnaði tónlistinni af myndugleik en hann var háseti á olíuskipi sem nýlega hafði látið úr höfn í Eyjum þegar gosið kom upp á Heimaey. Hann sagði frá því og öðru sem tengdi lögin saman. Tónlistarfólkið þekkjum við öll, Helgu og Arnór, Hermann Inga, Þórarinn Ólason, Sigurmund Einarsson og Unni Ólafs, Hrafnhildi Helgadóttur, Magnús sjálfan og Elvu Ósk Ólafsdóttur sem lét sér ekki nægja að syngja og spila á bassa heldur las hún úr dagbók móður sinnar frá upphafi gossins og var það tvímælalaust hápunktur kvöldsins.
Hún var stór fjölskyldan að Heiðarvegi 68. Hjónin Ólafur Oddgeirsson rafvirki og Ragna Eyvindardóttir, Gógó og börnin, Eyvindur, Elva Ósk, Hlynur, Hjörtur og Ásta Katrín. Öll heima gosnóttina, nema Eyvindur sem var fluttur að heiman.
Upplifunin að hlusta á upplestur Elvu var sterk. Hún, þessi stórkostlega leikkona, að lesa upp hugrenningar móður sinnar örlaganóttina fyrir 50 árum. Nótt sem greyptist í minni allra sem upplifðu. Þarna lögðu móðir og dóttir saman og úr varð einstök upplifun allra sem hlýddu á.
Mynd:
Elva Ósk hrærði hvert hjarta í salnum þegar hún las upp dagbók mömmu sinnar.
Grein úr Eyjafréttum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst