Það stefndi ekki í spennandi leik þegar ÍBV og Víkingur áttust við í Íþróttahúsinu í Eyjum í dag. Jafnræði var með liðunum framan af fyrri hálfleik, en síðan skildu leiðir. ÍBV jók forskot sitt jafnt og þétt og í hálfleik hafði ÍBV yfir, 15-10. En slík staða getur slævt einbeitingu leikmanna. Allavega kom allt „annað“ ÍBV inná í síðari hálfleik. Feilar og einbeitingarleysi í bland við ótímbær skot gerðu leikinn spennandi. Víkingar söxuðu jafnt og þétt á forskot Eyjapeyja og undir lok leiksins var munurinn 1 mark, lengra komust Víkingar þó ekki þrátt fyrir margar tilraunir og mikil tilþrif. Lokamínútan var hinsvegar æsileg og ekki fyrir hjartveika.