Vestmannaeyjahöfn hefur verið veitt heimild til framkvæmdar á allt að 20 borholum vegna jarðvegs-rannsókna innan svæðis á Helgafellshrauni sunnan Eldfells og oft kennt við Haugasvæði. Með grjótleitinni er vonast til að hægt verði að finna álitlegt berg sem hægt verði að nýta til hafnarframkvæmda og er hugmyndin er að nýta það til uppfyllingar á Eiðinu.
Fyrirtækið Völuberg mun sjá um framkvæmdina og verður notast við tæki frá Vegagerðinni og sérfræðikunnáttu sem þar er. Gert er ráð fyrir að dýpi holanna verði 15-35 metar og skal verkinu vera lokið innan þriggja mánaða frá dagsetningu leyfisins eða þann 9. apríl nk. Nákvæm staðsetning holanna er ekki skilgreind nákvæmlega og kemur til með að miðast við niðurstöður úr borunum.
Fram kemur í leyfisveitingunni sem Dagný Hauksdóttir, skipulagsfulltrúi kvittar undir að það sé mikilvægt að leyfishafi vinni verkefnið í samstarfi við umhverfis- og framkvæmdasvið bæjarins. Á svæðinu eru m.a. vegir, afgirt svæði þar sem heimilt er að vera með lausa hunda og dýrakirkjugarður. Framkvæmdaraðili skal taka tillit til þessara staða og halda framkvæmdum utan þeirra nema í frekara samstarfi við umhverfis- og framkvæmdasvið. Svæðið er vinsælt útivistarsvæði og gerð er krafa um að framkvæmdaaðili tryggi öryggi akandi og gangandi vegfarenda og hunda sem kunna að vera lausir á svæðinu.
Þegar lokið hefur verið við hverja holur er gerð krafa um að gengið sé frá svæðinu og það skilið eftir í upprunalegri mynd. Þegar framkvæmdum er lokið að fullu skal allt land skilið eftir í upprunalegri mynd. Tæki og búnaður fjarlægt og hugað að græðslu lands, t.d. með sáningu fræja þar sem það á við. Ef ekki verður farið að þessum leiðbeiningum með fullnægjandi hætti áskilur Vestmannaeyjabær sér rétt til að lagfæra svæðið á kostnað leyfishafa.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst