Leikmenn og stuðningsmenn enska úrvalsdeildarliðsins Portsmouth, sem Eyjamaðurinn Hermann Hreiðarsson leikur með, hafa ekki haft mikla ástæðu til að fagna í vetur. Liðið er í neðsta sæti, vandræði utan vallar hafa loðað við félagið í allan vetur og nú síðast voru dregin níu stig af félaginu, sem veldur því að örlög liðsins eru nánast ráðin í ensku deildarkeppninni. En annað er upp á teningnum í FA-bikarkeppninni þar sem Portsmouth er nú komið í undanúrslit sem verða leikin á þjóðarleikvanginum Wembley.