„Ég er ákaflega ánægð með fundinn og gaman að sjá þessa miklu mætingu,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, alþingismaður, fyrrum ráðherra og frambjóðandi til formanns Sjálfstæðisflokksins eftir fund í Ásgarði í Vestmannaeyjum í hádeginu í dag.
Áslaug Arna flutti framsögu þar sem m.a. kom fram að hún er óhrædd við breytingar og að stokka upp í kerfinu. Á eftir fylgdu spurningar um orku, heilbrigðis- og samgöngumál og Tryggvi Hjaltason vakti athygli á vasklegri framgöngu hennar sem ráðherra. „Það var gaman að sjá ný andlit í bland við öflugt fólk sem heldur starfi flokksins gangandi hér í Eyjum. Það voru góðar umræður um hvert við eigum að stefna og ná meiri árangri. Það hefur verið mér mjög mikilvægt að fara um landið og hitta sjálfstæðisfólk, ekki bara fyrir kosningar og landsfund heldur líka á hverju ári. Þar hafa Eyjar aldrei verið undanskildar og hingað er gott að koma,“ sagði Áslaug Arna.
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er 1. mars og hafa Áslaug Arna og Guðrún Hafsteinsdóttir, fyrrum ráðherra og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi boðið sig fram til formanns.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst