„Þetta er bara hreint rugl,“ sagði Bergvin Oddson á Glófaxa um skötuselsfrumvarp ráðherra, og það er þungt í honum þegar hann var spurður út í breytingarnar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. „Ég hef mestar áhyggjur af þessari viðbót, ég veit að stofninn þolir þetta ekki. Ég hafði samband við starfsmann Hafrannsóknastofnunar og hann segir þetta algjört brjálæði. Norðmenn og Færeyingar hafa lent í ofveiði á skötusel og þess vegna þurfum við að fara varlega í að bæta við kvótann. Þetta er stóralvarlegt mál,“ sagði Beddi sem hefur áratuga reynslu af veiðum og útgerð og þekkir fiskimiðin út og inn.