Fimm leikir eru á dagskrá í Pepsi deild karla í fótbolta í dag. Umferðinni lýkur síðan á morgun með leik Stjörnunnar og Víkings R.
ÍBV tekur á móti Fjölni á Hásteinsvelli kl. 18:00 og má búast við erfiðum leik fyrir Vestmannaeyinga. Fjölnir situr í 4. sæti deildarinnar með 20 stig á meðan ÍBV er í 9. sæti með 14 stig. Liðin mættust síðast í deildinni 7.maí á Extra vellinum í Grafarvogi þar sem Fjölnismenn höfðu betur 2-0. Martin Lund Pedersen skoraði þar bæði mörk Fjölnis en hann er samtals kominn með 7 mörk í 12 leikjum á tímabilinu.
Eins og kunnugt er þá eru Eyjamenn komnir í úrslit Borgunarbikarsins og verður spennandi að sjá hvort þeir ná upp sömu stemningu í deildinni og þeir hafa náð í bikarkeppninni.