ÍBV úr leik eftir framlengingu, vítaspyrnukeppni og bráðabana
28. júní, 2012
Það varð enginn vonsvikinn af því að fylgjast með leik ÍBV og Breiðabliks í 16-liða úrslitum Borgunarbikarsins á Hásteinsvelli í dag. Önnur eins dramatík hefur varla sést í íslenska kvennaboltanum því framlengja varð leiknum eftir að ÍBV hafði jafnað metin einum leikmanni færri á lokaandartökum leiksins. Breiðablik komst aftur yfir í seinni hálfleik framlengingarinnar en aftur jöfnuðu Eyjastúlkur og því varð að grípa til vítaspyrnukeppni. Eftir fimm spyrnur var enn jafnt en úrslitin réðust í fyrstu umferð bráðabanans þar sem Blikar nýttu sína spyrnu en ÍBV ekki. ÍBV er þar með úr leik í bikarnum.