Landsréttur dæmdi í gær ríkið til að greiða Vinnslustöðinni og Hugin ehf. skaðabætur vegna tjóns sem félögin urðu fyrir vegna ólögmætra skerðinga við úthlutun makrílkvóta á árunum 2011-2018. Hæstiréttur hafði með dómum á árinu 2018 fallist á kröfur fyrirtækjanna um viðurkenningu á bótaskyldu vegna þessara lögbrota, en nú var tekist á um fjárhæð skaðabóta.
Vinnslustöðinni voru dæmdar um 515 milljónir kr. í bætur auk vaxta og dráttarvaxta í héraðsdómi í fyrra en Landsréttur lækkaði bæturnar niður í 269,5 milljónir. Í dómi Landsréttar er kveðið á um að kröfur vegna áranna 2011 og 2012 væru fyrndar. Af þeim sökum eru bætur til Vinnslustöðvarinnar lækkaðar og verða 269,5 milljónir króna í stað 515,2 millljóna. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Hugins er hins vegar staðfestur af Landsrétti og nema bætur til þess fyrirtækis 467 milljónum.
Fram kemur í tilkynningu á vef Vinnslustöðvarinnar í dag að á þessu stigi sé verið að greina forsendur dóms Landsréttar um lækkun bótafjárhæða til Vinnslustöðvarinnar. Að lokinni þeirri greiningu verður ákvörðun um framhald málsins tekin.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst