Almannavarnanefnd Vestmannaeyja og Rauði krossinn í Vestmannaeyjum hafa nýlega lokið stöðufundi vegna COVID-19 veirusýkingarinnar. Fundurinn nú var haldinn af því tilefni að í gær greindist fyrsta tilfellið á Íslandi og var viðbúnaðarstig almannavarna hækkað úr óvissustigi í hættustig á landsvísu.
Fulltrúar almannavarna í Vestmannaeyjum hafa fundað reglulega vegna COVID-19 veirusýkingarinnar síðan í lok janúar og hafa meðal annars fundað með stofnunum og öðrum hagaðilum vegna veirunnar. Unnið hefur verið eftir viðbragðsáætlun almannavarna um heimsfaraldur á landsvísu síðan í janúar auk þess sem stofnanir og fyrirtæki í Vestmannaeyjum hafa virkjað og vinna eftir sínum eigin áætlunum. Á fundi í lok janúar var fundað með viðbragðsaðilum og forsvarsmönnum skólanna, Hraunbúða og Herjólfs. Þessar stofnanir hafa unnið eftir eigin áætlunum síðan og sóttvarnir efldar. Í janúar var farið yfir birgðastöðu hlífðarbúnaðar hjá viðbragðsaðilum og hafa þeir móttekið viðbótar birgðir.
Vestmannaeyjahöfn hefur unnið eftir Sóttvarnaáætlun hafna og skipa síðan í byrjun febrúar og er unnið eftir stífu skipulagi. Þá hefur farið fram þarfagreining á mögulegum farsóttarhúsum í Vestmannaeyjum þar sem til greina kemur að vista fólk annars vegar í sóttkví vegna útsettra einstaklinga og hins vegar í einangrun vegna smitaðra/veikra. Að öllu jöfnu er gert ráð fyrir því að slíkt fari fram í heimahúsi ef mögulegt er. Unnið er að gerð mönnunaráætlana og miðast allur undirbúningur við það að upp komi smit í Vestmannaeyjum þrátt fyrir að vonir standi til þess að ef svo verði að tilfellin verði einangruð, engin eða fá.
Eitt tilfelli hefur verið staðfest í Reykjavík, ekkert tilfelli hefur komið upp í Vestmannaeyjum og engin líkleg tilfelli þekkt hér sem stendur. Nokkuð er um að fólk dvelji í sóttkví víðs vegar um landið vegna dvalar á áhættusvæðum og á það einnig við um Vestmannaeyjar. Líklegt er að fleiri tilfelli komi upp á Íslandi. Viðbragð almannavarna miðar að því að hefta útbreiðslu mögulegs faraldurs meðal annars í því skyni að álag á heilbrigðiskerfið verði viðráðanlegt. Samkvæmt mati almannvarnadeildar Ríkislögreglustjóra er talið að með viðeigandi sóttvarnarráðstöfunum séu miklar líkur á að álag verði ekki of mikið. Þá ber að hafa í huga að 80% þeirra sem veikjast fá væga sýkingu.
Það er mat almannavarnanefndar að viðbragðsaðilar og innviðir í Vestmannaeyjum séu vel í stakk búnir til að takast á við sóttvarnarráðstafanir og önnur verkefni sem upp geta komið vegna veirunnar.
Skipulag almannavarna byggir á því að allir viðbragðsaðilar vinni saman að verkefnum í því skyni að leysa þau. Þegar og ef þörf verður á samræmdri stjórnun aðgerða í Vestmannaeyjum, verður aðgerðastjórn virkjuð þar sem allar ákvarðanir verða teknar. Ef útbreiðsla veirunnar krefst gæti þurft að grípa til aðgerða eins og að setja skip í sóttkví, loka skólum og takmarka fjöldasamkomur. Óljóst er þó á þessu stigi hvort til þess muni koma.
Því er beint til fólks að halda ró sinni og að hlutverk hvers og eins í sóttvörnum er mikilvægt. Því fleiri sem fara eftir leiðbeiningum um eigin sóttvarnir því líklegra er að hægt verði að takmarka útbreiðslu. Sóttvarnaraðgerðir eins og sóttkví, einangrun, snögg greining og rakning tilfella eru framkvæmdar í þeim tilgangi að takmarka útbreiðslu. Mikilvægt er að hafa í huga að þó að einstaklingar lendi í þessum aðstæðum er ekki við þá að sakast heldur um að ræða viðbrögð í almannaþágu. Mikilvægt er að allir takist á við verkefni sem þetta af yfirvegun og æðruleysi.
Bent er á leiðbeiningar á vef landlæknis um hreinlæti, handþvott og sprittun www.landlaeknir.is
Páley Borgþórsdóttir, Íris Róbertsdóttir, Hjörtur Kristjánsson, Ólafur Þór Snorrason, Friðrik Páll Arnfinsson, Arnór Arnórsson, Geir Jón Þórisson og Jóhannes Ólafsson.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst