Á síðasta fundi umhverfis- og skipulagsráðs var rætt um áætlanir eigenda Strandvegs 26, Ísfélagshússins að rífa húsið. Eigandi er Ísfélag Vestmannaeyja. Kom fram á fundinum að Vestmannaeyjabær hefur rætt við stjórnendur fyrirtækisins um hvort mögulegt sé að halda hluta af húsinu enda gegni það mikilvægu hlutverki í ásýnd miðbæjarins. Eigendur telja að húsið sé of illa farið til slíkt sé raunhæfur kostur.
Skipulagsfulltrúi fór yfir ákvæði byggingareits í deiliskipulagi, þar sem grunnhugmyndin er að viðhalda að mestu leyti núverandi útlínum byggingarinnar en nýta innsvæðið undir bílastæði.
Ráðið taldi brýnt að byggingareiturinn verði nýttur sem allra fyrst og hvetur til þess að leitað verði eftir samstarfi við áhugasama aðila um að fara í sameiginlega þróun fasteignar á reitnum sem verður til þegar húsið víkur. Í því samhengi beri að skoða sérstaklega hvort að hluti af byggingareitnum geti nýst undir íbúðir sem nú er stefnt að því að byggja fyrir fatlaða og ráð er gert fyrir í fjárhagsáætlun fyrir yfirstandandi ár.
Ráðið beindi því til þeirra sem um málið koma til með að fjalla að áhersla verði lögð á að viðhalda þeim kennileitum sem hvað mest eru áberandi á byggingareitnum. Er þá sérstaklega vísað til bogans sem snýr að Strandvegi, auk þess sem leitast verði við að húsið nýtist til að efla enn frekar þann sterka miðbæ sem byggður hefur verið upp á undanförnum árum.