Íþróttamaður mánaðarins er nýr liður í Eyjafréttum þar sem við munum leggja spurningar fyrir íþróttafólk í Eyjum. Fyrst í röðinni er fótboltakonan Allison Patricia Clark sem hefur átt virkilega góðu gengi að fagna með kvennaliði ÍBV en þær sitja á toppi Lengjudeildarinnar og eru komnar í undanúrslit Mjólkurbikarsins. Allison hefur verið einn af betri leikmönnum deildarinnar í sumar og hefur bæði verið drjúg að leggja upp og skora fyrir ÍBV.
Nafn: Allison Clark – Aldur: 24 ára – Fjölskylduhagir: Jennifer (móðir), Jeffrey (faðir), Matthew (eldri bróðir), Zoey (yngri systir).
Hvernig er venjulegur dagur í þínu lífi: Venjulegur dagur byrjar snemma hjá mér með morgunrútínunni minni sem felur í sér hugleiðslu, sjónræna hugsun, dagbókarskrif og svo morgunmat – venjulega fæ ég mér hafragraut og kaffi á meðan ég les eitthvað sem veitir mér innblástur. Ég elska að fara á góða æfingu á morgnana, hvort sem það er að lyfta, teygja eða spila fótbolta. Eftir það eyði ég venjulega tíma í tölvunni en undanfarið hef ég verið að skipuleggja tvær stórar ferðir sem ég er mjög spennt fyrir. Ég borða svo hádegismat, heyri í fjölskyldunni eða vinum heima og fer svo á æfingu síðdegis. Eftir æfingu set ég fókusinn á endurheimt til dæmis með köldum/ heitum potti og sturtu. Ég eyði svo kvöldunum í að slappa af – ég borða kvöldmat og horfi á þátt með herbergisfélögum mínum áður en ég fer að sofa.
Aðal áhugamál? Fótbolti, líkamsrækt, ferðalög, bæta mig persónulega, heilsa og vellíðan, ljósmyndun og andlegir þættir.
Hver er þín helsta fyrirmynd í íþróttum? Ég hef alltaf haldið mikið upp á Michael Jordan. Ég veit að þetta er klassískt svar, en bæði hugarfar hans og keppnisskap hafa veitt mér ótrúlega mikinn innblástur. Ég ber virðingu fyrir því hvernig hann nálgaðist sína íþrótt og þær kröfur sem hann setti á sjálfan sig.
Hefurðu spilað aðrar íþróttir en fótbolta? Já! Þegar ég var yngri var ég í fimleikum og ég spilaði mjúkbolta (softball).
Hvernig hefur gengið að aðlagast lífinu í Vestmannaeyjum? Þetta hefur í algerri hreinskilni verið svo falleg upplifun. Vestmannaeyjar eru friðsælar og fullar af hlýju, bæði í náttúrunni og fólkinu. Samfélagið hefur tekið mér svo vel og ég finn mig svo tengda hér. Hægari lífshraði, notalegt andrúmsloft og það hvernig allir styðja hvern annan hefur verið mjög jarðbundið. Eftir að hafa eytt fjórum árum í New York borg í háskóla hefur þetta verið svo mikil andstæða á góðan hátt. Að búa hér hefur kennt mér gildi einfaldleika, tengsla og samfélags – minni ys og þys og meiri nærveru. Ég mun taka þennan lærdóm með mér út í lífið það sem eftir er. Eyjan er ekki aðeins einstaklega falleg með stórkostlegu útsýni allt í kring, heldur gerir fólkið staðinn frábæran.
Hvert stefnirðu í fótboltanum? Mig dreymir um að spila í einni af stærstu deildum í heiminum.
Sturluð staðreynd um sjálfan þig? Ég hef farið í fallhlífarstökk á Fiji!
Eitthvað að lokum? Ég er svo þakklát fyrir tímann minn í Eyjum og hjá ÍBV. Þetta er svo sérstakur staður og ég mun varðveita minningarnar sem ég hef skapað hér það sem eftir er ævinnar. Mig langar að þakka öllum sem hafa tekið mér svona opinskátt og látið mér líða eins og heima hjá mér
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst