Hið árlega Ragnarsmót í handknattleik karla hefur verið haldið nú í vikunni, en mótið er haldið árlega til minningar um Ragnar sem var einn efnilegasti handboltaleikmaður á Selfossi. Hann lést einungis 18 ára gamall í bílslysi.
Yfirleitt mætast bestu lið landsins á mótinu og markar það upphaf keppnistímabilsins í handboltanum. Í ár eru það þessi lið sem kepptu á mótinu: Selfoss, Afturelding, Fram, ÍBV, KA og Hörður.
ÍBV stóð uppi sem sigurvegari Sethöllinni á Selfossi síðdegis í gær, laugardag. ÍBV vann Aftureldingu örugglega í úrslitaleik, 35-22, eftir að hafa verið tveimur mörkum yfir í hálfleik, 15-13.
ÍBV lék á tíðum í leiknum mjög góða 5/1 vörn sem Aftureldingarmönnum gekk illa að leysa. Ívar Bessi Viðarsson lék stórt hlutverk sem fremsti maður. Einnig átti Petar Jokanovic stórleik í markinu og gerði Mosfellingum erfitt um vik. Rúnar Kárason lék við hvern sinn fingur í sókninni.
Strákarnir í ÍBV unnu allar þrjá leikina á mótinu á sannfærandi hátt. Breiddin í liðinu er mjög góð og verður spennandi að sjá hvða liðið gerir þegar keppni í Olísdeildinni hefst og ekki síður þegar kemur að Evrópuleikjum í fyrri hluta næsta mánaðar.
Ragnarsmótið í kvennaboltanum hefst 30. ágúst.
Heimild: Handbolti.is
Mynd: Mynd/UMFSelfoss
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst