Cruise Iceland, samstarfsvettvangur þeirra sem þjónusta skemmtiferðaskip lýsir yfir verulegum áhyggjum af ákvörðun stjórnvalda um að afnema tollfrelsi skemmtiferðaskipa á hringsiglingum sem taka á gildi 1. janúar nk. Ákvörðuninni hafði verið frestað um eitt ár vegna viðvarana frá Cruise Iceland og fleiri. Nefndarálit meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar mælti fyrir um frestun afnámsins en nú er reitt til höggs. Ljóst er að þetta mun hafa áhrif á ferðaþjónustu um allt land og þar eru Vestmannaeyjar ekki undanskildar.
„Málið leggst illa í hafnaryfirvöld um allt land, sérstaklega þar sem búið er að rjúfa þing og kosningar fyrirhugaðar í lok nóvember. Það gerist því lítið í þessu stóra máli á næstu vikum. Á sama tíma eru skipafélögin að afboða komur sínar til hafna sem hafa ásamt ferðaþjónustunni fjárfest í innviðauppbyggingu m.a. til að taka á móti skemmtiferðaskipum,“ segir Dóra Björk Gunnarsdóttir, hafnarstjóri í Vestmannaeyjum.
Í áliti Cruise Iceland er því beint til stjórnvalda að taka málið aftur til skoðunar í samráði við hagsmunaaðila og að brýnt sé að meta fjárhagslegar afleiðingarnar. Þetta hafi enn ekki verið gert og stutt til áramóta. Gæti valdið ómældum skaða fyrir íslenska ferðaþjónustu og tengda hagaðila segir í ályktuninni.
Íþyngjandi efnahagsleg áhrif
Stjórn Cruise Iceland segir það á forræði stjórnvalda að leggja mat á íþyngjandi efnahagsleg áhrif fyrir íslenskt atvinnulíf. Ábyrgð kjörinna fulltrúa sé mikil því þetta verði mikð högg fyrir íslenska ferðaþjónustu. Ekki síst ef brothættar byggðir verða verst úti eins og útlit er fyrir.
„Þar sem stjórnvöld hafa ekki enn lagt mat á tjónið af aðgerðinni hvetur Cruise Iceland til þess að afnámi tollfrelsisins verði frestað um tvö ár á meðan lagt er fullt mat á hagræn áhrif þess,“ segir í ályktuninni og er vísað í tölur, varlega áætlaðar. Samkvæmt þeim eru beinar tekjur af hafnargjöldum, áætlaðri eyðslu ferðamanna, opinberum gjöldum, olíusölu, flugfargjöldum og þjónustu eingöngu vegna hringsiglinga á Íslandi 10,8 milljarðar króna.
Þegar farið að hafa áhrif
Samkvæmt upplýsingum Dóru Bjarkar er töluverður hluti skemmtiferðaskipa sem hingað kemur á hringferð um landið. Er niðurfellingin þegar farin að hafa áhrif og bókanir færri fyrir sumarið 2025 en 2024 og 2023. „Það er því ljóst að afnám tollfrelsis hefur þegar áhrif á ferðaþjónustuna í Vestmannaeyjum sem hefur tekið vel við sér í ár og er að þjónusta farþega vel. Þetta á að taka gildi um áramótin en ennþá liggja engar upplýsingar fyrir um hvernig á að vinna þetta,“ segir Dóra Björk.
Síðasta sumar voru bókaðar 109 komur skemmtiferðaskipa til Vestmannaeyja og voru rúmlega 40% þeirra í hringsiglingum. Leggist þær af eins og teikn eru um verður tekjutapið mikið fyrir samfélagið, höfnina, ferðaþjónustuna, veitingastaði, söfn og verslanir. Pantanir vegna komu skemmtiferðaskipa eru gerðar með að minnsta kosti þriggja ára fyrirvara en afnámið var sett á með rúmlega árs fyrirvara sem er að mati Dóru Bjarkar of stuttur tími fyrir skipafélögin sem skipuleggja áætlanir skipanna með góðum fyrirvara.
Þá sé fyrirvarinn í raun og veru einungis fáeinar vikur þar sem enn liggi ekkert fyrir um hvernig framkvæmdin verður og tæpir þrír mánuðir til stefnu.
„Farþegar í hringferðum um landið koma í flestum tilfellum um borð í Reykjavík og þar eru mikil umsvif í kringum farþegaskipti. Farþegar gista á hótelum fyrir og eða eftir ferðina og fljúga til og frá landinu. Þetta eru þeir farþegar skemmtiferðaskipa sem skilja hvað mest eftir sig. Bara hótelgisting í Reykjavík sem skipafélögin kaupa kostar á annan milljarð króna. Leggist hringsiglingar skemmtiferðarskipa af mun afnám tollfrelsis ekki skila neinum tekjum í ríkissjóð en hafa umtalsverð neikvæð áhrif á rekstur hafna og þjónustuaðila. Áhrifin verða hvað mest á landsbyggðinni,“ sagði Dóra Björk.
Sitji við sama borð og flugið
Að mati Cruise Iceland er hægt að afstýra þessum ógöngum með því að falla frá ákvörðun um afnám tollfrelsis skemmtiferðaskipa og taka upp gjaldtöku á hvern komufarþega sem myndi renna í uppbyggingu á hverjum stað. „Ef ekki verður fallið frá þessari ákvörðun þarf að fresta henni til ársins 2027. Þá er hægt að leggja mat á efnahagsleg áhrif afnámsins og skipafélögin geta komið kostnaðinum á farþegana. Núna eru félögin búin að selja ferðir 2025 og jafnvel 2026 og því ekki hægt að setja aukinn kostnað á farþegana,“ segir í ályktun samtakanna.
„Fyrir okkur í Vestmannaeyjum og aðra áfangastaði á landsbyggðinni er mjög miður að ekki sé meiri þekking á eðli farþegaflutninga með skipum milli landa í stjórnkerfinu. Í okkar augum kemur á óvart ef farþegaflutningar með skemmtiferðaskipum eigi ekki að sitja við sama borð og farþegaflug sem nýtur augljóslega líka tollfrelsis.
Hingað koma ekki millilandaflugvélar en við fáum farþega með skemmtiferðaskipum og það er mjög sérkennilegt að það sé ekki skilningur á þessu meðal stjórnvalda. Farþegar koma í land, eyða hér peningum alveg eins og flugfarþegar gera á öðrum áfangastöðum. Af því koma tekjur, skatttekjur og virðisauki,“ segir Dóra Björk,“ að endingu.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst