Framherjinn Kristín Erna Sigurlásdóttir er gengin í raðir Fylkis frá ÍBV en þetta var staðfest á fréttamannafundi í hádeginu. Samningurinn er til tveggja ára.
Kristín Erna er 24 ára gömul og hefur allan sinn feril spilað með ÍBV síðan hún lék sinn fyrsta leik í meistaraflokki árið 2007.
Hún hefur leikið 125 leiki með ÍBV í deild og bikar og skorað í þeim 84 mörk. Auk þess hefur hún skorað 5 mörk í 9 leikjum með yngri landsliðum Íslands.
Kristín Erna er annar framherjinn sem Fylkir fær til sín í haust því áður kom Sonja Björk Jóhannsdóttir frá KR.