Kristín Gunnarsdóttir er Eyjamaðurinn að þessu sinni, en hún er starfsmaður hjá Deloitte þar sem hún hefur starfað í bráðum 44 ár. Kristín hefur margra ára reynslu hjá fyrirtækinu og er sannkölluð fyrirmynd í starfi, þar sem hún hefur ávallt sinnt starfi sínu að mikilli fagmennsku. Er við hæfi að hún sé Eyjamaðurinn í blaði sem helgað er fjármálageiranum.
Fullt nafn: Kristín Gunnarsdóttir
Fjölskylda: Maðurinn minn heitir Haraldur Gunnarsson. Ég á þrjú börn og þau heita Hrefna, Eyrún og Gunnar Karl sem er látinn. Svo á ég þrjú barnabörn.
Hefur þú búið annars staðar en í Eyjum: Er fædd og uppalin í Reykjavík, kom til Eyja 1977 og ætlaði að vera í 3 mánuði og er hér enn.
Hvenæar byrjaðir þú að vinna fyrir Deloitte? Starfsaldurinn hjá Deloitte er að nálgast 44 ár.
Hvernig hefur starfið þróast og breyst frá því þú byrjaðir hjá Deloitte og til dagsins í dag? Það hafa orðið gríðarlegar breytingar á þessum tíma. Við fengum fyrstu tölvuna um 1987 en fram að því var allt skráð á bókunarblöð og sent til Reykjavíkur og þar var það slegið inn í tölvu. Öll gögn voru send með pósti, en svo kom faxtækið og það var algjör bylting. Mér finnst ég reyndar vera 100 ára þegar ég rifja þetta upp, en undanfarin ár hafa orðið gríðarlegar framfarir. Allt orðið rafrænt og og auðvelt að eiga við.
Mottó: Lífið er núna
Síðasta hámhorfið: Ekkert
Uppáhalds hlaðvarp: Eftirmál, Segðu mér og fl. og fl.
Aðaláhugamál: Fjölskyldan, útivera og lestur góðra bóka.
Eitthvað sem þú gerir á hverjum degi sem þú gætir ekki verið án: Ganga. Ég setti mér markmið í október 2020 að ganga 100 km á mánuði. Búin að ná því nema í janúar og febrúar þar sem veðrið hefur ekki verið mjög spennandi.
Hvað óttast þú mest: Ekkert
Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Allt nema þungarokk og rapp.
Hvað er velgengni fyrir þér: Vellíðan í lífi, leik og starfi.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Þeir eru margir, t.d Borgarfjörður eystri, Bled í Slóveníu, Hallstatt í Austurríki og fl. og fl.
Eitthvað að lokum: Takk fyrir mig!
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst