Kristín Klara Óskarsdóttir, hand- og fótboltakona hlaut viðurkenningu fyrir íþróttakonu æskunnar 2024 sem valinn var nú í janúar síðastliðnum. Kristín Klara átti framúrskarandi ár og æfir bæði fótbolta og handbolta. Hún steig stórt skref síðastliðið sumar með því að spila 15 leiki með meistaraflokki kvenna í fótbolta. Hún varð bikarmeistari með 4. flokki kvenna og hjálpaði liðinu einnig að ná silfri á Íslandsmótinu. Kristín Klara er frábær fyrirmynd, dugleg og einbeitt í æfingum sínum. Kristín Klara svaraði nokkrum spurningum fyrir Eyjafréttir.
Fjölskylda: Foreldrar mínir eru Óskar Jósúason og Guðbjörg Guðmannsdóttir. Svo á ég tvo yngri bræður sem heita Jósúa Steinar og Nóel Gauti.
Hefur þú búið annarstaðar en í Eyjum: Nei, er fædd og uppalin í eyjum.
Mottó? Er ekki með neitt sérstakt mottó, bara halda áfram og gefast aldrei upp.
Síðasta hámhorfið: Prison Break.
Uppáhalds hlaðvarp? Hef ekki ennþá hlustað á hlaðvarp.
Aðaláhugamál: Fótbolti og handbolti.
Eitthvað sem þú gerir á hverjum degi sem þú gætir ekki verið án: Fara á æfingar og hlusta á tónlist í ,,airpodsunum“ mínum, ég nota airpods mikið og ég gæti ekki verið án þeirra.
Hvað óttast þú mest: Það er ekkert eitthvað sérstakt, er allavegana ekkert að spá í hvað ég hræðist. Ég er meira að einbeita á hvað mig langar að gera.
Hvað er velgengni fyrir þér: Velgengni fyrir mér er að ná markmiðum mínum, sama hvort þau séu stór eða lítil. Það er ekki bara að vera best í öllu, heldur að bæta mig stöðugt og læra af mistökum.
Hvenær byrjaðir þú að æfa fótbolta? 2014 þá var ég 5 ára.
Hvenær byrjaðir þú að æfa handbolta? Þegar ég var 6 ára.
Var eitthvað sem kom á óvart síðasta sumar í fótboltanum? Ég átti alls ekki von á að verða hluti af meistaraflokki, hvað þá að spila 15 leiki með liðinu síðasta sumar.
Hvernig gengur þèr að samræma fótboltann og handboltann? Það er alveg stundum bras, en hef góða þjálfara sem passa upp á álagið.
Eitthvað að lokum? Ég þakka fyrir viðurkenninguna og áfram ÍBV.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst