Innblástur, styrkur, gleði og valdefling kvenna
Kvennaráðstefnan Mey – Kraftur kvenna á Heimaey verður haldin í fyrsta skipti í Vestmannaeyjum 2023. Dagskráin er orðin fastmótuð og er gerð í góðu samstarfi við Lista- og menningarfélag Vestmannaeyja, Ferðamálasamtök Vestmannaeyja og Vestmannaeyjabæ. Það er Viska – fræðslu og símenntunarmiðstöð Vestmannaeyja sem stendur fyrir ráðstefnunni.
Minna Björk Ágústsdóttir forstöðumaður Visku segir markmiðið með ráðstefnunni vera að sameina konur og gefa þeim tækifæri á viðburði sem þessum í Vestmannaeyjum. Einnig að veita konum innblástur, styrkja þær, gleðja og valdefla. „Markmiðið er að halda ráðstefnuna á hverju ári og að hún muni vera sjálfbær. Einnig er markmiðið að efla samstarf á milli ofantalinna félaga í Vestmannaeyjum. Fyrirlesarar, tónlistar- og listafólk eru allt konur.
Viðtökurnar hafa verið góðar og uppselt er á ráðstefnuna. Dagskráin hefst með útivist kl. 12:00 laugardaginn 22. apríl. Farið verður í göngu undir leiðsögn og fræðslu tengda krafti og konum. Þaðan er haldið í Sagnheima þar sem þrjú erindi verða á dagskrá, ásamt tónlistaratriði og skapandi vinnustofu.
Dagskráin þar hefst á erindi dr. Guðfinnu Sesselju Bjarnadóttur fyrrum rektors Háskólans í Reykjavík. Guðfinna stofnaði nýverið, ásamt Benedikt Olgeirssyni og Sigríði Olgeirsdóttur, fyrirtækið Magnavita eða „Magnað líf”. Nú leiðir hún nýtt nám við HR miðað að fólki á þriðja æviskeiðinu svokallaða, á aldrinum 55 til 75 ára. Markmið þess er að fjölga spennandi og heilbrigðum æviárum fólks með markvissu námi til að efla hreysti, lífsfyllingu, félagsleg tengsl og virkni. Guðfinna hlaut nýverið þakkarviðurkenningu frá Félagi kvenna í atvinnulífinu ( FKA).
Hrönn Róbertsdóttir, eigandi og tannlæknir á Brosinu Heilsuklinik fræðir um mikilvægi neföndunar og að gæðasvefn er lykill að betri lífsgæðum, neföndun bætir einbeitingu og frammistöðu.
Því næst er skapandi vinnustofa í umsjón Jónínu Bjarkar Hjörleifsdóttur. Jónína er listakona og meðlimur í Lista og menningarfélagi Vestmannaeyja. Hún leiðbeinir konum í leirgerð þar sem allar konur hanna sinn eigin bolla sem þær fá svo að eiga. Hugsunin er að kaffibollinn minni konur á daginn og fræðsluna og haldi áfram að styrkja þær.
Að lokum tekur við Sigríður Soffía Níelsdóttir listamaður og danshöfundur. Sigga Soffía hefur undanfarin ár helgað sig flugeldum á himni og á jörðu. Eftir margra ára feril sem listrænn stjórnandi flugeldasýninga á menningarnótt á Íslandi og í Barcelona, hefur hún nú beint athyglinni að blómstrandi flugeldum. Sigga Soffía hefur einnig þróað alíslenskan Spritz úr eldblómum. Erindin hennar hafið vakið athygli og skilja eftir sig skemmtilega upplifun. Sigga Soffía hlaut Íslensku bjartsýnisverðlaunin árið 2022.
Það er mín von að Mey verði orðinn fastur liður í tengslum við fleiri viðburðum sem haldnir eru í Vestmannaeyjum og Hljómey og Matey. Er það okkar von að þessi ráðstefna muni skapa jákvæða ímynd af samfélaginu,“ sagði Minna að lokum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst