Lækkun vaxta og verðbólgu mesta kjarabótin
25. mars, 2024

„Þessir samningar snúast fyrst og fremst um að gera fjárhagsstöðu barnafjölskyldna og láglaunahópa bærilegri. Einnig þeirra sem eru með klafa húsnæðislána á bakinu með þeirri vaxtabyrði og verðbótum sem fylgja þeim. Ef allar forsendur ganga upp batnar hagur flestra um tugi þúsunda á mánuði þó minnst af því komi í gegnum beinar launahækkanir. Framundan er gerð kjarasamninga við sveitarfélög og ríkið og er stefnt að því að þeir verði á sömu nótum. Verkalýðshreyfingin og vinnandi fólk hefur sýnt mikla ábyrgð með gerð þessara samninga og svo verðum við bara að sjá hvort aðrir geri það líka því annars verður samningnum sagt upp,“ segir Arnar Hjaltalín, formaður Drífanda stéttarfélags um nýgerða kjarasamninga. 

 Í kynningu á samningnum segir að með gerð þessa samnings er markmiðið að með samstilltu átaki verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda, ríkis og sveitarfélaga verði böndum komið á verðbólguna og vextir lækki umtalsvert í kjölfarið. Forsendur eru hófstilltar launahækkanir, fyrirtæki lækki hagnaðarkröfu og dragi úr álagningu. Hófleg hækkun opinberra gjalda ríkis og sveitarfélaga og að vextir húsnæðislána lækki samhliða lækkun verðlags.  

Byggt er á sameiginlegri þátttöku allra aðila semþurfi að skila sínu. Eitt skilyrðið er endurreisn tilfærslukerfa vinnandi fólks, hærri barnabætur, vaxtabætur og leigubætur og aðrar umbætur í velferðarmálum. Gert er ráð fyrir ströngu forsenduákvæði til að verja launafólk, komi til þess að markmið samnings náist ekki. 


Það var líf og fjör á loðnuvertíðinni í Vinnslustöðinni í fyrra en svo verður ekki í ár. Þar missir starfsfólk og sjómenn af góðum tekjum.
Mynd Addi í London.

Blönduð leið
Hækkun launa er í krónum og prósentum. Fyrsta hækkun var 1. febrúar 2024 og svo 1. janúar árin, 2025, 2026 og 2027. Hækka laun um 3,25% í upphafi en svo 3,5% ár hvert hvert, en þó að lágmarki 23.750 kr. Samingurinn gildir frá 1. febrúar sl. til 31. janúar 2028. Byrjandi hækkar um 95.000 kr. á samningstímanum, eða um 23,6%. Þó er meðaltalshækkun í launatöflu kr. 100.659 kr. eða um 23,6% og aðrir kjaratengdir liðir taka almennum hækkunum í kjarasamningi nema um annað hafi verið samið. Persónuuppbætur  hækka milli ára, fer orlofsuppbót úr 58.000 krónum í 64.000 og desemberuppbót úr 106.000 í 118.000 árið 2027. Einnig fjölgar orlofsdögum hjá þeim er ekki hafa náð fullum orlofsréttindum auk ýmislegra lagfæringa á samningnum. 

Í samningnum er ákvæði sem tryggir launafólki hlutdeild í framleiðiaukningu en gert er ráð fyrir að framleiðnivöxtur verði 2% að jafnaði á ári á samningstímanum. Aukist framleiðni meira mun launafólk fá hlutdeild í þeirri verðmætaaukningu í formi sérstaks framleiðniauka. 

Ríkisstjórnin hefur kynnt aðgerðaáætlun sem felur í sér fjárframlög til ýmissa mála sem gagnast vinnandi fólki. Er þar um að ræða árlega aukningu ríkisútgjalda um 20 milljarða, samtals um 80 milljarða á samningstímanum. Meðal aðgerða eru öflug íbúðauppbygging með markvissri uppbyggingu í almenna íbúðakerfinu með stuðningi gegnum stofnframlög og hlutdeildarlán til að treysta húsnæðisöryggi og tryggja viðráðanlegan húsnæðiskostnað tekjulægri heimila. Stutt verður við byggingu allt að 1.000 íbúða á ári, tekjumörk hlutdeildarlána hækkuð um 8,2% frá 1. apríl 2024.  

Stuðlað verður að auknu framboði á lóðum og húsnæði, stjórnsýsla einfölduð og lífeyrissjóðum auðveldað að koma að uppbyggingu á íbúðarhúsnæðis til útleigu. Þá er í boði sérstakur vaxtastuðningur vegna hás vaxtakostnaðar, 5 til 7 milljarðar á þessu ári.  

Barnabætur verða auknar með það að markmiði að fjölga viðtakendum barnabóta og að skerðingarmörkin verði hækkuð í átt að millitekjum. Hækkunin nemur 3 milljörðum í ár og 3 milljörðum á því næsta. Hámarksupphæð barnabóta hækkar úr 600.000 krónum í 900.000 á tímabilinu í þremur áföngum. Þá er stefnt að því að brúa bilið  á samningstímanum milli fæðingarorlofs og leikskóla. Greiddur kostnaður fólks á landsbyggðinni í læknisferðir miðast við fjórar ferðir á ári.  

Fiskvinnslufólk sem ekki er boðið fiskvinnslunámskeið færist í 9. launaflokk innan 11 mánaða eftir gildistíma kauptryggingar skulu starfsmenn eigi að síður njóta hækkunar.  

Miklir hagsmunir í  húfi
Eitt af stærri málunum eru gjaldfrjálsar skólamáltíðir grunnskólabarna sem verða gjaldfrjálsar frá ágúst 2024 út samningstímann. Áætlaður kostnaður forráðamanna í dag er 5 milljarðar króna. Þetta atriði er ekki alveg fullfrágengið hjá öllum sveitarfélögum en við eigum ekki von á öðru en þetta verði frágengið hjá þeim öllum innan skamms. 

Þá er komið að lið sem skiptir mestu, sem er lækkun verðbólgu og stýrivaxta og verður helsta kjarabótin gangi hún eftir. Sem dæmi má nefna að lækkun vaxta um 1 prósent á 25 milljón króna láni skilar rúmum 400.000 krónum á ári beint í vasann. Verði lækkunin 2,5% losar það rúma milljón sem sýnir að til mikils er að vinna. Af 33 milljóna króna láni eru samsvarandi kjarabætur liðlega 530.000 krónur upp í 1.329.000 krónur. 

Ríkið skuldbindur sig til að hækka ekki gjaldskrár umfram 2,5% á árinu 2025. Tilmæli til sveitarfélaga um að endurskoða áður útgefnar hækkanir og halda þeim innan 3,5% vegna barnafjölskyldna. 

Mest lesið
viðburðir
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst