Nú þegar aðeins fimm umferðir eru eftir í Íslandsmótinu í 1. deild karla í handbolta eru línur farnar að skýrast nokkuð. Selfoss og Afturelding hafa verið í sérflokki í vetur og berjast nú um efsta sæti deildarinnar, sem gefur sjálfkrafa rétt á úrvalsdeildarsæti næsta vetur. Liðin sem enda í 2., 3. og 4. sæti fara hins vegar í umspil um eitt sæti í úrvalsdeild ásamt því úrvalsdeildarliði sem endar í næst neðsta sæti í úrvalsdeildinni í ár. Eins og stendur er ÍBV í þriðja sæti deildarinnar en með sigri í næsta leik, gæti ÍBV stigið mikilvægt skreft í að tryggja sér umspilssæti. Umspilið fer svo fram í lok apríl og byrjun maí.