Helgi Benediktsson (1899 – 1971) útvegsbóndi og kaupmaður var einn umsvifamesti athafnamaður Vestmannaeyja á síðustu öld. Hann kom fyrst til Vestmannaeyja árið 1919 og seldi hér kolafarm. Helga leist svo vel á Eyjarnar að hann ákvað að setjast hér að og hóf verslunarrekstur samhliða námi. Hann lauk námi frá Samvinnuskólanum vorið 1921 og flutti þá til Vestmannaeyja.
Helgi stofnaði Verzlunarfélag Vestmannaeyja árið 1924 í félagi við fleiri og hóf útgerð vélbáta 1925. Hann eignaðist síðan Verzlunarfélagið einn. Helgi átti og gerði út samtals 20 skip og báta um ævina og voru mest átta bátar gerðir út samtímis. Þar af voru fimm smíðaðir í Eyjum. Þá var hann með netaverkstæði, saltfisk- og skreiðarverkun, verbúðir og mötuneyti auk skipaafgreiðslu. Helgi rak m.a. verslanir með matvöru og álnavöru auk heildverslunar og inn- og útflutnings. Þegar mest var rak hann sjö verslanir.
Helgi hóf rekstur kúabús í Hábæ 1929 og seldi mjólk. Einnig rak hann minkabú í Hábæ og var formaður Búnaðarfélags Vestmannaeyja um skeið. Þá stóð Helgi fyrir smíði Hótels HB að Heiðarvegi 15 árið 1949 þar sem sýslumannsembættið er nú til húsa. Einnig var Helgi með saumastofu og sá ýmsum verslunum í Reykjavík fyrir varningi á stríðsárunum. Auk þess rak hann Eyjabíó í Alþýðuhúsinu um langt skeið. Þegar umsvifin voru mest unnu um 160-180 manns hjá Helga.
Helgi var frumkvöðull og rekstrarmaður en um leið mikill samvinnumaður og tók þátt í ýmsum félögum sem Eyjamenn stofnuðu til að sinna rekstri. Hann var t.d. einn af stofnendum Vinnslustöðvarinnar og sat í fyrstu stjórn félagsins. Einnig var hann í stjórn Ísfélags Vestmannaeyja um langa hríð. Hann tók þátt í Lifrarsamlagi Vestmannaeyja, Netagerð Vestmannaeyja, Olíusamlagi Vestmannaeyja, Fisksölusamlaginu og samtökum útvegsbænda. Helgi var aðal forgöngumaðurinn að stofnun Sparisjóðs Vestmannaeyja og var í stjórn hans fyrstu 15 árin. Þá var hann bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins og forseti bæjarstjórnar 1950-1954. Helgi var vel ritfær og gaf út eigið blað, Framsókn, og skrifaði einnig í Framsóknarblaðið og var ritstjóri þess um tíma. Hér er ekki rúm til að tíunda nánar allt sem Helgi Ben. kom í verk um ævina, heldur fjallað um bátana sem hann lét smíða eða gerði út.
Útgerðarsaga Helga hófst þegar hann eignaðist hlut í Auði VE 3 árið 1925, 15 brúttólesta (brl.) báti sem hann lét smíða hér í Eyjum. Hann eignaðist síðan bátinn einn. Auður VE var fyrsta nýsmíði Dráttarbrautar Vestmannaeyja sem Verzlunarfélagið stofnaði ásamt Gunnari Marel Jónssyni skipasmíðameistara. Sama ár eignaðist Helgi hlut í Freyju VE 260 sem strandaði við Landeyjasand tveimur árum síðar. Hann lét smíða Skíðblaðni VE 287, 16 brl., í Vestmannaeyjum árið 1929 og átti hann til 1950. Helgi keypti árið 1929 69 brl. stálskip með gufuvél, smíðaðan í Noregi 1902, sem fékk nafnið Gunnar Ólafsson VE 284. Hann var seldur 1933. Helgi átti einnig á þessum tíma bátana Blakk VE 303, 27 brl. smíðaðan 1895, Blika VE 143, 22 brl. smíðaðan 1922, Enok VE 164, 11 brl. smíðaðan 1912, Leó VE 249, 18 brl. smíðaðan 1919, Siggu VE 142, 5 brl. smíðuð 1909 og Tjald VE 225, 15 brl. smíðaðan 1919.
Auk Auðar VE og Skíðblaðnis VE lét Helgi smíða hér Mugg VE 322, 25 brl. bát, árið 1935, Helga VE 333, 120 brl. skip, árið 1939, en hann var þá stærsta skip sem smíðað hafði verið á Íslandi. Sama ár keypti Helgi Skaftfelling VE 33 sem hafði siglt með vörur og fólk milli Reykjavíkur, Vestmannaeyja og Víkur í Mýrdal. Síðan fylgdi smíðin á Helga Helgasyni VE 343 sem lauk árið 1947. Hann var 189 brl. og er stærsta tréskip sem smíðað hefur verið hér á landi.
Helgi VE og Skaftfellingur VE sigldu með ísfisk til Fleetwood í Englandi öll stríðsárin og fluttu heim m.a. kol, salt, efni til skipasmíða og netagerðar, byggingarvörur, vefnaðarvöru og margt annað. Helgi VE fór fleiri ferðir í stríðinu með fisk til Englands en nokkuð annað skip. Í einni ferðinni bjargaði áhöfn Skaftfellings VE 52 skipbrotsmönnum af þýskum kafbáti sem skemmst hafði í árás bandarískrar herflugvélar.
Blómaskeið var í skipasmíðum í Vestmannaeyjum á árunum 1940-1950. Þá störfuðu hér Dráttarbraut Vestmannaeyja, stofnuð 1925, og Skipasmíðastöð Vestmannaeyja, stofnuð 1941. Þar unnu nær tveir tugir skipasmiða ásamt fjölda aðstoðarmanna á blómaskeiðinu. Brynjólfur Einarsson skipasmíðameistari teiknaði Helga Helgason VE og stjórnaði smíðinni á honum á árunum 1941-1947. Steingrímur Arnar átti fróðlegt viðtal við Brynjólf um skipasmíðar hans og störf fyrir Helga Benediktsson sem birtist í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja 1977.
Brynjólfur segir þar að Helgi hafi viljað byggja stóran bát í ársbyrjun 1936 undir stjórn Gunnars Marels. Gunnar var önnum kafinn og bað Brynjólf að vera yfirsmiður við smíði Helga VE 333. Brynjólfur vann svo hjá Helga í 17 ár. Helgi átti þá Enok VE, Auði VE, Skíðblaðni VE og Mugg VE, smíðaða í Vestmannaeyjum. Gunnar Marel smíðaði Skíðblaðni VE og Mugg VE fyrir Helga einan og Auði VE fyrir Helga og sameignarmenn hans. Ástgeir Guðmundsson í Litlabæ smíðaði Enok VE fyrir Þórð á Bergi o.fl. Helgi VE var smíðaður eftir líkani sem Gunnar Marel gerði. Hann þótti vera afbragðs sjóskip. Sem kunnugt er fórst Helgi VE við Faxasker þann 7. janúar 1950 og með honum tíu menn. Einn þeirra var Hálfdan Brynjar, sonur Brynjólfs bátasmiðs.
Brynjólfur segir að Helgi hafi viljað hefja smíði á nýju skipi árið 1940 sem yrði enn stærra en Helgi VE. Stríðið setti strik í reikninginn varðandi útvegun smíðaviðar. Það tókst að afla efnis og smíði Helga Helgasonar VE 343 hófst vorið 1943. Hún tók nákvæmlega fjögur ár. Brúttóstærð hans mældist vera 189 tonn og var hann stærsta skip sem smíðað hafði verið hér innanlands fram að því.
Helgi gerðist árið 1950 sameignarmaður Guðmundar Oddssonar í flutningaskipinu Oddi sem var 245 brl. smíðað árið 1948. Oddur flutti vörur hér við land og fisk til Íslands og Spánar. Hann strandaði 1957 og var talinn ónýtur eftir það. Arnþór, sonur Helga, segir að faðir hans hafi ekki fengið fyrirgreiðslu til bátasmíða hér á landi. Hins vegar var auðvelt að fá lán og styrki til smíði báta erlendis. Helgi lét þá smíða fimm fiskibáta í Svíþjóð, stærð og smíðaár hvers báts er tilgreint í sviga. Þeir voru Frosti VE 363 (54 brl., 1954), Fjalar VE 333 (49 brl., 1955), Hildingur VE 3 (56 brl., 1956), Gullþórir VE 39 (58 brl., 1959) og stálbáturinn Hringver VE 393 (126 brl., 1960). Hringver var síðasti báturinn sem Helgi lét smíða. Hann sökk í janúar 1964 á Síðugrunni, mannbjörg varð.
Helgi kvæntist Guðrúnu Stefánsdóttur frá Skuld (1908 – 2009) þann 26. maí 1928. Guðrún stóð fyrir stóru heimili þeirra hjóna með miklum myndarskap auk þess að stunda verslunarstörf. Þegar mest var bjuggu 15-20 manns í heimili þeirra á Heiðarvegi 20, þar á meðal voru oft vertíðarmenn.
Helgi og Guðrún eignuðust átta börn: Stefán (f. 1929, d. 2000), Sigtrygg (f. 1930, d. 2012), Guðmund (f. 1932, d. 1953), Pál (f. 1933), Helga (f. 1938, d. 1960), Guðrúnu (f. 1943, d. 2022) og tvíburana Arnþór og Gísla (f. 1952). Helgi Benediktsson varð bráðkvaddur þann 8. apríl 1971, þá á 72. aldursári.
Myndarleg sýning á líkönum allra báta og skipa sem Helgi átti einn eða með öðrum, alls 20 líkön, var haldin í Listaskóla Vestmannaeyja 3. – 5. desember 1999, þegar 100 ár voru liðin frá fæðingu hans. Auk þess voru sýnd tvö skipslíkön sem tengdafaðir Helga, Stefán Björnsson í Skuld átti, myndir úr lífi og starfi Helga og fjölskyldu hans ásamt kvikmyndum af athafnalífi Vestmannaeyja á fyrri helmingi 20. aldar. Sýninguna sóttu um 900 manns.
Heimildir:
Arnþór Helgason: Föðurminning. Fréttir 23. desember 1999, bls. 20.
Arnþór Helgason: Útgerð Helga Benediktssonar. Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2000.
Helgi Benediktsson, grein. Heimaslod.is, 2021.
Hermann Einarsson: Blómaskeið í skipasmíðum. Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1988.
Metaðsókn að afmælissýningu. Fréttir 9. desember 1999, bls. 16.
Steingrímur Arnar: Lítið brot úr mikilli sögu. Viðtal við Brynjólf Einarsson. Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1977.
Sævar Þ. Jóhannesson: Helgi Benediktsson, aldarminning. Morgunblaðið 3. desember 1999.
Þorsteinn Þ. Víglundsson: Helgi Benediktsson. Íslendingaþættir Tímans 11. tbl. 1971.
Grein úr 10. tbl. Eyjafrétta.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst