Hvað verður um lífræna úrganginn okkar?
Við hjá Umhverfis Suðurland í slagtogi við Árna Geir vin okkar, fórum á stúfana og fengum að kynnast því ferli sem fer í gang þegar búið er að sækja lífræna úrganginn. Niðurstöðuna settum við svo saman í stutt myndband, en eftir að hafa horft á það ætti enginn að velkjast í vafa um gagnsemi þess að flokka lífrænan úrgang.
Umhverfis Suðurland er áhersluverkefni og sameiginlegt átak sveitarfélaganna fimmtán á Suðurlandi með Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga. Það gengur út á öflugt árvekni- og hreinsunarátak þar sem íbúar, fyrirtæki og sveitarfélög í landshlutanum eru hvött til enn meiri flokkunar og endurvinnslu en nú er, auk þess sem ráðist verður í almenna tiltekt í landshlutanum í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands.
Átakið mun standa fram á næsta ár með ýmsum viðburðum og og ákveðnu þema fyrir hvern mánuð sem verður kynnt nánar þegar nær dregur.
Í september á hverju ári fer fram árvekniátakið Plastlaus september og plast því þema þess mánaðar. Átakinu er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um ofgnótt og skaðsemi plasts í umhverfinu og benda á leiðir til að draga úr notkun á einnota plasti. Hver Íslendingur skilur eftir sig um 40 kíló af úrgangi umbúðarplasts á ári. Við á Suðurlandi viljum vera áberandi hluti af átakinu í ár og vonum að íbúar, sveitarfélögin og fyrirtæki taki vel í það með virkri þátttöku.
Umhverfis Suðurland er Áhersluverkefni og hluti af Sóknaráætlun Suðurlands. Verkefnið er styrkt af uppbyggingarsjóðum sem taka mið af áherslum sóknaráætlunar í hverjum landshluta.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst