Metabolic Reykjavík opnaði með pompi og prakt þann 7. janúar 2019 í húsnæði við Stórhöfða 17 í Reykjavík. Það er ekki endilega í frásögur færandi, nema fyrir það að í brúnni stendur Eyjakonan Eygló Egils. Hún og vinkona hennar, Rúna Björg höfðu þann draum að opna stöð sem þessa í Reykjavík og létu verða af því og eru þær báðar eigendur ásamt eiginmanni vinkonunnar.
Um er að ræða glæsilegan æfingasal sem nýtist vel undir hóptíma sem eru í boði. Eygló er framkvæmdastjóri og yfirþjálfari. „Mér finnst mjög viðeigandi að vera frá Vestmannaeyjum og vera með líkamsrækt við Stórhöfða! Hér er líka stundum hvasst eins og á Stórhöfðanum í Eyjum og þá finnst mér bara pínulítið eins og ég sé komin heim þó útsýnið okkar yfir Esjuna komi aldrei í staðinn fyrir Heimaklett,“ bætir Eygló við en útsýnið yfir Grafarvoginn gerir stöðina hennar eina þá athyglisverðustu í Reykjavík.
Þau bjóða upp á mjög fjölbreytta tíma og aðstaða öll er til fyrirmyndar. „Einnig hefur hlaupaþjálfun verið sinnt í skorpum, aðallega á sumrin. Við erum svo heppin að vera með náttúruna í Grafarvoginum hérna beint fyrir utan svo það er stutt í góð æfingasvæði fyrir hlaupin og aðrar útiæfingar. Við höfum einnig sett upp notalega aðstöðu fyrir nuddara svo þjónustan eykst jafnt og þétt.“
Reksturinn er kominn í fullan gang eftir heimsfaraldur. „Markmið okkar er ekki að senda fólk þreytt heim af æfingu, heldur betra. Hvaða þjálfari sem er getur gert einhvern þreyttan, en ekki allir hjálpa þér að verða betri. Hjá okkur starfa einungis lærðir þjálfarar og saman búum við til þetta einstaka samfélag iðkenda og þjálfara. Gagnkvæm virðing og gott samstarf eru jafnhátt skrifuð og markviss árangur,“ sagði Eygló sem í sumar var í öflugum hópi á Eyjafréttum. Hefur hún nú stigið til hliðar til að sinna rekstrinum í Reykjavík.
Mynd:
Eygló er ánægð salinn sem er bjartur og fallegur og opnast beint út á stórar svalir í norður þar sem horft er í átt að Esju og yfir Grafarvoginn.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst