Forsíða Eyjafrétta segir mikla sögu breytinga í almennri þjónustu. Myndina tók Sigurgeir Jónasson þegar haldið var upp á 40 ára afmæli Sparisjóðs Vestmannaeyja 3. desember 1982. Þarna er mikið um að vera. Margt fólk bíður eftir þjónustu, gjaldkerar telja peninga, taka við ávísunum og skrá úttektir og innlegg í sparisjóðsbækur og alla fært í höndum.
Allt er þetta liðin tíð eins og kemur fram í blaði Eyjafrétta sem kemur út í dag. Vestmannaeyjar hafa alltaf verið mikill athafnabær sem stærsta verstöð landsins. Seinustu ár hefur öflug ferðaþjónusta bæst í körfuna. Fjárfesting í sjávarútvegi skiptir tugum milljarða á undanförnum árum og fjárfesting í ferðaiðnaði er umtalsverð. Er henni hvergi nærri lokið, hvorki í sjávarútvegi né ferðaþjónustu þar sem nú er stefnt að byggingu lúxushótels og baðlóns á Nýja hrauninu. Með tilkomu Laxeyjar er enn einni stoðinni bætt við atvinnurekstur í sveitarfélaginu. Þar verður til fjöldi nýrra starfa.
Allt kallar þetta á fjölbreytta þjónustu banka, tryggingafélaga og endurskoðunarskrifstofa. Er þeim gerð skil í blaðinu í dag. Kemur á óvart hvað margir starfa við fjármálaþjónustu í Eyjum, alls um 40 manns auk þeirra sem starfa á skrifstofum fyrirtækja í bænum. Fólk með góða menntun og með störf við hæfi. Í dag skiptir í mörgum tilfellum ekki máli hvar fólk býr og margir hafa flutt til Eyja frá Reykjavík og tekið vinnuna með sér.
Með aukinni tækni hefur bankastarfsemi breyst eins og sést á forsíðumyndinni sem Sigurgeir Jónasson tók á 40 ára afmæli Sparisjóðs Vestmannaeyja í desember 1982. Fullur salur af fólki og gjaldkerar á hverju borði. Mikið var að gera um hver mánaðamót og oft biðraðir en aldrei leiðinlegt. Oft skemmtilegt spjall en nú er öldin önnur.
Viðurkenning á mikilvægi Vestmannaeyja
En bankarnir eru hér enn og það eitt er viðurkenning á mikilvægi Vestmannaeyja í íslensku efnahagslífi. Líka að hér eru öflugar endurskoðunarskrifstofur og tryggingafélög með útibú hér þó viðskipti fari í auknum mæli fram í gegnum tölvur. Ekki síður að aðrir bankar og fjármálafyrirtæki horfi til Eyja og vilji fá að vera með.
Ætti þó ekki að koma á óvart því Vestmannaeyjar eru öflugasta sveitarfélag landsins. Sem dæmi má nefna að skip skráð í Vestmannaeyjum eru með 32% hlut í loðnukvótanum og tólf til fjórtán prósent af bolfiskvóta. Ferðaþjónusta skiptir miklu og nú er einni stoðinni bætt við, laxeldisfyrirtækið Laxey sem stefnir að því að fjárfesta fyrir 60 milljarða á næstu árum. Það er því eðlilegt að horft sé til Eyja.
Af öðru efni má nefna viðtal við Þórunni Pálsdóttur, hjúkrunarfræðing og ljósmóður um brjóstagjöf, Erlingur Gunnar Richardsson, handboltaþjálfari með meiru vill að mörkuð verði stefna í uppbyggingu íþróttamannvirkja og Helgi Braga og Jói P fagna 25 ára afmæli lögmannsstofu sinnar.
Þetta og margt fleira er í blaði dagsins. Meðal annars viðtöl við Kristján Gunnar Ríkharðsson um fyrirhugað hótel og baðlón ofan við Skansinn og Sigríði Gröndal framkvæmdastjóra JAE- eigna sem eiga og reka Hótel Vestmannaeyjar, Pósthúsið, Bása og húsin vestur á Hamri.
Jóhann Halldórsson hefur í pistlum sínum kallað Vestmannaeyjar Litlu Mónakó. Er það að verða staðreynd?
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst