Sjávarréttahátíðin MATEY hlaut Fréttapýramídann 2024 sem framtak ársins. MATEY hefur verið haldin árlega síðan 2022. Ferðamálasamtök Vestmannaeyja halda hátíðina í samstarfi við Fab Lab Vestmannaeyjum, Ísfélag og Vinnslustöð, veitingastaði auk fleiri aðila. Markmiðið er að vekja athygli á sjávarsamfélaginu Vestmannaeyjum og á sjávarfangi Eyjanna. Einnig að styðja við sjálfbæra nýtingu hráefna úr sjónum og draga fram sérstöðu Vestmannaeyja sem mataráfangastað.
Hátíðin er haldin á haustin og stendur heila helgi. Allir sem að hátíðinni koma gera það af metnaði sem skilar sér í mikilli athygli sem hátíðin hefur fengið. Á hátíðinni taka matvælaframleiðendur, veitingastaðir og ferðaþjónustan höndum saman til að kynna það besta sem Eyjarnar hafa upp á að bjóða í mat og drykk. Íslenskir kokkar ásamt erlendum gestakokkum sjá um að matreiða nýstárlega sjávarrétti á veitingastöðum bæjarins. Framtakið hefur svo sannarlega sett Vestmannaeyjar á kortið sem áfangastað fyrir matgæðinga sem koma víðsvegar að úr heiminum. Erlendir fjölmiðlar hafa komið á hátíðina. Má þar nefna New York Times, TimeOut magazine, the Caterer, la Vanguardia, og fleiri sem hafa fjallað um hátíðina og Vestmannaeyjar sem áfangastað á jákvæðan hátt.
Framtakið er hugsað til þess að efla ferðaþjónustu, vekja athygli á gæðum íslenskra sjávarafurða og að skapa nýjar hugmyndir í matargerð með áherslu á hráefni í heimabyggð. Hátíðin hefur verið haldin þrisvar sinnum og hefur hún nú þegar vakið athygli víða um heim. Ekki einungis erlenda fjölmiðla heldur einnig matgæðinga og áhugafólks um matargerð. Og það hefur tekist.
Frétt CECBI um Matey þar sem verðlaunakokkarnir Marco Sobral frá Portúgal, Marta Oti frá Spáni og Alessandro Abbrescia frá Ítalíu og Eyjakokkar buðu til mikillar veislu á Mateyjarhátíðinni síðasta haust í Herjólfsbæ. Vel heppnuð eins og sést í myndbandinu.
Eyjafréttir óskar fulltrúum MATEYJAR innilega til hamingju.
Hér fyrir neðan má sjá myndir frá Matey 2024.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst