Í kvöld klukkan 18:00 fer fram stórleikur í Pepsídeild kvenna á Hásteinsvelli þegar meistaraefnin í Þór/KA koma í heimsókn til Eyja. Norðanstelpur eru langefstar í deildinni og þegar aðeins þrjár umferðir eru eftir, eru þær með sex stiga forystu á Stjörnuna, sem er í öðru sæti og sjö stiga forystu á ÍBV, sem er í því þriðja. Vinni Þór/KA í kvöld, eru þær svo gott sem búnar að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn og gætu jafnvel tryggt sér hann með hagstæðum úrslitum í leik Aftureldingar og Stjörnunnar.