Enn og aftur sannar Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV karla í handboltanum að hann er meistari endataflsins. Hann sýndi það oftar en einu sinni í undanúrslitunum gegn FH og nú bætist enn ein rósin í hnappagatið hjá honum eftir 33:27 sigur á Haukum í fyrsta leik úrslitanna í Vestmannaeyjum í dag.
Staðan var jöfn í hálfleik 14:14 en Haukar mættu grimmir til seinni hálfleiks og leit ekki byrlega út fyrir ÍBV þegar líða tók á hálfleikinn. Komið fram á 39. mínútu og staða 15:20 fyrir gestina. Þá gerðist undrið, peðin, hrókarnir, riddararnir, biskuparnir, kóngurinn og kannski drottningin líka skelltu í lás í vörninni og mokuðu inn mörkum án þess að Haukar kæmu nokkrum vörnum við. Á þessum tíu mínútum sneru lærisveinar Erlings við dæminu sem nam 11 mörkum og unnu verðskuldað.
Þar með er staðan eitt núll fyrir ÍBV sem mætir Haukum á Ásvöllum í öðrum leiknum á Ásvöllum á Þriðjdaginn.
Rúnar Kárason og Arnór Viðarsson voru markahæstir með 6 mörk og Kári Kristján með 5 mörk. Það sem skilur liðin að er að á meðan tólf leikmenn ÍBV skora mörk ná aðeins sex Haukamenn að koma boltanum í netið. Pavel var frábær í markinu, varði 11 skot.
Eyjamenn höfðu ástæðu til að fagna eftir leikinn í dag.
Mynd Sigfús Gunnar.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst