Frá því á síðustu öld hef ég unnið í menntakerfinu með fólki frá 4 ára upp í áttrætt. Ég vann á leikskóla í tæpt ár, í grunnskóla í 18 ár, í framhaldsfræðslu í átta og til hliðar hef ég kennt í faginu mínu í háskóla í 9 ár. Í upphafi var það tilviljun sem réði náms- og starfsvali hjá mér, en ég sé svo sannarlega ekki eftir því að hafa unnið með fólki í skólakerfinu í öll þessi ár. Fjölbreytt, skemmtilegt og síðast en ekki síst mikilvægt.
Svo ofur mikilvægt.
Í gegnum tíðina hef ég séð fólk hafa skýra stefnu, blómstra og ná markmiðum sínum í námi og störfum. Það eru líka mörg sem vita ekki hvert skal stefna, missa kúrsinn, skipta um skoðun eða heltast úr lestinni af heilsufarslegum eða félagslegum ástæðum. Það er einfaldast ef sem flest falla í fyrri hópinn, en þannig er raunveruleikinn ekki alveg. Við erum alls konar, aðstæður eru ólíkar, við höfum mismunandi hæfni og áhuga og þurfum mis mikla leiðsögn og stuðning í gegnum menntakerfið og lífið sjálft.
Menntakerfið er mikilvægasta jöfnunartækið sem við höfum í fjölbreyttu samfélagi. Jafnara samfélag þýðir öruggara samfélag. Hamingjusamara samfélag. Gott menntakerfi stuðlar að því að skapa jöfn tækifæri fyrir öll auk þess að ýta undir þátttöku í lýðræðissamfélagi þar sem fólk nær að blómstra, rækta hæfileika og færni og þroskast. Við erum væntanlega öll til í það.
En hvað viljum við í VG? Við viljum búa betur að börnum og starfsfólki skóla. Menntun á að vera gjaldfrjáls á öllum skólastigum og lögfesta á leikskólastigið í áföngum. Efla þarf viðbótarnám í framhaldsskólum og auka vægi fjarnáms alls staðar þar sem því verður við komið í framhalds- og háskólum og í framhaldsfræðslu. Menntakerfið á að vera opinbert og rekið á félagslegum forsendum. Þetta er brot af þeim áherslum og aðgerðum sem VG leggur áherslu á.
Ég kýs gæða menntun. Ég kýs jafnt og réttlátt samfélag. Ég kýs þar sem hjartað slær.
Helga Tryggvadóttir, náms- og starfsráðgjafi, 4. sæti á lista VG í Suðurkjördæmi.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst