Síðustu daga hafa loðnuskipin verið að veiðum við Vestmannaeyjar og því stutt að sækja. Það hefur því verið mikið líf í Vestmannaeyjahöfn og allt á fullu bæði hjá Ísfélagi og Vinnslustöð og unnið á vöktum allan sólarhringinn.
„Loðnuveiðar ganga mjög vel og við höfum bara stillt veiðina eftir afköstum vinnslunnar,“ sagði Sindri Viðarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Vinnslustöðvarinnar. „Við höfum verið að frysta á fullu og hefur það gengið mjög vel. Þegar veiðin er svona góð er miklu einfaldara að stýra henni eftir afköstum vinnslunnar og tryggja þannig að við séum alltaf með eins ferskt hráefni og mögulegt er. Nú þurfum við að fara að undirbúa okkur undir hrognavinnslu sem ætti að hefjast um helgina.
Við eigum eftir um 25.000 tonn en erum að bíða eftir því að vita hverjar reglurnar varðandi viðbótarkvótann verða. Hafrannsóknastofnun hefur mælst til þess að hluti aukningarinnar verði veidd fyrir norðan en við höfum ekki séð útfærsluna á því,“ sagði Sindri.
„Ísfélagsskipin eru búin að veiða rúm 24.000 tonn á þessari vertíð sem hefur að stórum hluta farið í frystingu,“ sagði Eyþór Harðarson, útgerðarstjóri Ísfélagsins. „Við stefnum á að byrja í hrognatöku um næstu helgi. Þá ætti hrognaþroskinn að vera góður fyrir markaðinn. Það er nóg eftir að veiða eftir síðustu úthlutun og nú er bara spurningin hvort veðrið og aðstæður til loðnuveiða verði okkur hagstæðar til að klára kvótann seinnipartinn í marsmánuði,“ sagði Eyþór.
Ísfélagið tekur nýtt hrognahús við FES í gagnið þegar hrognataka hefst um helgina.
Loðnuvinnsla í Vinnslustöðinni.
Mynd Addi í London.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst