Loðnu var landað úr átta skipum í Vestmannaeyjum í gær. Samtals var aflinn rúmlega átta þúsund tonn. Meðal þeirra sem taka þátt í loðnuvinnslunni eru framhaldsskólanemendur í Eyjum. Þeir nemendur sem hafa mætt vel í skólann fá vikufrí frá námi til að taka þátt í loðnuvertíðinni. Sólveig Adolfsdóttir, nemandi í Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum, segir að hún þurfi að læra meira heima þessa daga.