Um síðustu áramót tók gildi nýtt fjármögnunarlíkan fyrir heilsugæslu á landsbyggðinni. Þetta er liður í að innleiða þjónustutengda fjármögnun heilbrigðisþjónustu um allt land í samræmi við Heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Nýja kerfið byggist í meginatriðum á sömu þáttum og liggja til grundvallar fjármögnunarlíkans heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu sem innleitt var árið 2017 og hefur gefið góða raun. Markmiðið er að auka gæði og skilvirkni þjónustunnar og stuðla að því að grunnheilbrigðisþjónusta sé veitt í sem mestum mæli á heilsugæslustöðvum. Greiðslur taka mið af þjónustuþörf notenda
Í fjármögnunarlíkani heilsugæslu á landsbyggðinni hafa verið gerðar nokkrar viðbætur og breytingar frá líkani höfuðborgarsvæðisins. Til dæmis hefur verið bætt við þáttum sem taka tillit til smæðar einstakra heilsugæslustöðva, fjarlægðar á milli starfsstöðva sem heyra undir sömu heilsugæslu, álagi vegna vaktþjónustu og slysa- og bráðamóttöku.
Nýja fjármögnunarlíkanið nær til 33 heilsugæslustöðva á landsbyggðinni sem heyra undir sex heilbrigðisstofnanir. Margar heilsugæslustöðvanna eru með fleiri en eina starfsstöð og eru starfsstöðvarnar samtals 56.
Kerfi í stöðugri þróun
Meðfylgjandi eru skýrsla sem birtir fyrstu útgáfu fjármögnunarlíkans heilsugæslu á landsbyggðinni með kröfulýsingu, upplýsingum um gæðaviðmið og fleira. Einnig fylgir hér sambærileg skýrsla um fjármögnunarlíkan heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu árið 2021. Bent er á að fjármögnunarlíkön eins og hér um ræðir eru í stöðugri endurskoðun og þróun og geta tekið breytingum á milli ára. Þróun fjármögnunarkerfis heilsugæslu á landsbyggðinni hófst árið 2019 og hafa fulltrúar heilbrigðisstofnananna verið virkir þátttakendur í þróun kerfisins frá upphafi.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst