Í dag opnar deilileiga fyrir rafskútur í Vestmannaeyjum undir merkjum Hopp. Þjónustan verður opnuð sem sérleyfi (e. franchise) en það eru þau Nanna og Jón Þór sem eru að opna reksturinn hér í Eyjum. Opnað verður með 25 öflugum rafskútum af nýjustu gerð (árgerð 2021) og verður hægt að leigja þær í gegnum app í snjallsíma. Hámarkshraði rafskútanna er 25km/klst og komast þær hátt í 55km á einni hleðslu.
Fyrir þá sem ekki vita er Hopp alíslenskt fyrirtæki sem býður upp á þjónustu þar sem hægt er að leigja rafskútur innan ákveðins þjónustusvæðis. Notendur aflæsa rafskútunum með appi og geta síðan keyrt um á þeim gegn vægu gjaldi. Þegar ferðinni er lokið er hægt að leggja rafskútinni hvar sem er innan þjónustusvæðisins. Það mun sem sagt vera hægt að hoppa alla leið suður á Stórhöfða svo lengi sem að ferðin endi aftur inni á þjónustusvæðinu í bænum.
Líkt og í Reykjavík mun Hopp í Vestmannaeyjum sjá til þess að þjónustan gagnist heimamönnum fyrst og fremst. Markmiðið er að bjóða einstaklingum upp á umhverfisvænan, ódýran og handhægan ferðamáta til þess að komast leiðar sinnar á svæðinu. Það mun kosta 100 kr. að aflæsa rafskútunum og svo 30 kr. hver mínúta í leigu þar á eftir. 5 mínútna ferð, frá vestur úr bæ niður í miðbæ mun því kosta litlar 250 kr. Einnig er hægt að setja hjólið í „pásu“ og kostar þá mínútan aðeins 20 kr. (Sjá nánari upplýsingar í hopp appinu).
Til og með sumardeginum fyrsta munu allir sem sækja Hopp appið í Vestmannaeyjum fá tvær fríar ferðir á skútunum okkar (15 mínútur).
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst