Tómstunda- og æskulýðsstarf er í miklum blóma í Vestmannaeyjum. Við búum svo vel að eiga öflug íþróttafélög og í boði eru fjölmargar greinar. Aðstaða til íþróttaiðkunar er til fyrirmyndar og fer batnandi með tilkomu fjölnota íþróttahússins sem framkvæmdir eru hafnar við. Öll aðstaða er skipulögð á sama svæðinu við íþróttahúsið sem gerir ástundun einfaldari, sérstaklega fyrir börn og unglinga. Vestmannaeyjabær hefur unnið að því með íþróttafélögunum að æfingar yngstu barnanna byrji fyrr á daginn þannig að þeirra vinnudegi ljúki fyrir kl. 17 en dragist ekki fram á kvöld.