Helsti hvati að stofnun félagsins voru miklir mannskaðar með tilkomu vélbáta í upphafi síðustu aldar. Var Björgunarfélag Vestmannaeyja stofnað árið 1918 og var tilgangur félagsins að kaupa björgunar- og eftirlitsskip, annast bjargráð, eftirlit með veiðarfærum og landhelgisgæslu við Ísland. Fyrsta verkefni félagsins var að fá lagðan talsímastreng suður í Stórhöfða svo fylgjast mætti með nauðstöddum bátum þaðan og koma skilaboðum sem fyrst niður í bæ.
Fyrstu stjórn félagsins skipuðu Karl Einarsson alþingismaður formaður. Jóhann Þ. Jósefsson kaupmaður skrifari, Gísli Lárusson kaupfélagsstjóri, Þorsteinn Jónsson útvegsbóndi og skipstjóri, Sigurður Sigurðsson lyfsali var ráðinn erindreki stjórnar.
Þór, fyrsta varðskip Íslendinga
Það var svo hinn 26. mars 1920 að Þór kom í fyrsta skipti til Eyja við mikinn fögnuð íbúanna. Þór var fyrsta varðskip Íslendinga og lagði síðar grunninn að Landhelgisgæslunni eins og við þekkjum hana í dag. Skipið var upprunalega togari sem hannaður var í Englandi fyrir dansk-íslenska verslunar- og fiskveiðifélagið á Geirseyri. Þetta var gufuskip, 205 tonna, 35.05 m langt, 6.4 m að breidd og ganghraði um 10 mílur.
Árið 1924, í júlímánuði, var sett fallbyssa í skipið vegna þess hversu erfiðlega gekk í stríðinu við landhelgisbrjótana. Einar M. Einarsson var skipaður fallbyssuskytta og var þar með fyrsti Íslendingurinn sem fær opinbera skipun í það embætti.
Þór gegndi svo landhelgisstörfum sínum fram til ársins 1929, en það ár strandaði skipið á Sölvabakkaskerjum á Húnaflóa og sökk þar.
Kom að björgun mörg hundruð sjómanna
Á meðan Þór var í eigu Björgunarfélagsins til miðs árs 1926, er eftirfarandi til um störf hans. Þar vantar tvö fyrstu árin: Í landhelgi voru tekin 65 skip. Sektir námu 490 þúsundum króna. Að auki voru afli og veiðarfæri gerð upptæk, og rann það allt í ríkissjóð. Hann fór á þessum tíma 80 sinnum til að leita að bátum og dró 40 í land. Á þeim voru 200 til 300 menn.
Hann var oft í flutningum með vörur og fólk, og þegar sæsíminn slitnaði voru loftskeytatæki skipsins notuð til þess að hafa samband við land. Hann gætti veiðarfæra Eyjabáta fyrir ágangi erlendra togara, og hífði oft upp netahnúta. Á vertíðinni 1921 var læknir um borð í skipinu. Til reksturs skipsins veitti bæjarsjóður Vestmannaeyja samtals 450 þúsund krónum, meðan það var í eigu Vestmannaeyinga.
Árið 1979, á Sjómannadeginum, var vígður minnisvarði um Þór. Minnisvarðinn er hlaðinn stallur með skrúfunni af Þór á toppi þess, en kafarar náðu henni upp og Björgunarfélagið keypti hana.
Hjálparsveit skáta stofnuð
Árið 1965 var stofnuð Hjálparsveit skáta Vestmannaeyja (HSV) en var ekki formlega stofnuð fyrr en í janúar 1966. Helsta starf hennar fyrstu árin var að sjá um skyndihjálp á Þjóðhátíð. Breyting varð á starfinu árið 1971 þegar sveitinni var gefinn bátur.
Árið 1992 voru svo Björgunarfélag Vestmannaeyja og Hjálparsveit skáta Vestmannaeyjum sameinuð undir nafni Björgunarfélags Vestmannaeyja. Félagið er nú vel búið og er með einn besta viðbragðstíma í sjóbjörgun á Íslandi.
Sama ár var stofnað Landssamband hjálparsveita og var HSV ein af stofnsveitum. Áramótin 1971-1972 var HSV með flugeldasölu og hefur sveitin haldið utan um hana síðan. Árið 1972 var tekið af miklum krafti og æft var klifur og fjallaferðir af miklum eldmóð. Eldgosið hófst og tók HSV. virkan þátt í því að koma fólki af eyjunni. Félagsstarf hefur alltaf verið mikið og hafa verið klifin fjöll eins og Mont Blanc í Frakklandi og Kilimanjaro í Tansaníu.
Að bjarga fólki og verðmætum
Megintilgangur og markmið sveitarinnar er að stunda almenna björgunar-, leitar- og hjálparstarfsemi þegar mannslíf eða verðmæti eru í hættu. Það var svo 26. janúar 1966 að gengið var frá stofnun hennar, og kosin stjórn. Örn Bjarnason læknir var sveitarforingi, Halldór Svavarsson aðstoðarsveitarforingi. Sigurður Þ. Jónssonritari og Sigurjón Einarsson gjaldkeri. Varamenn voru kjörnir Hörður Hilmisson og Gunnar Hinriksson.
Þann 29. nóvember 1971 var stofnað Landssamband hjálparsveitar skáta, og var Hjálparsveit skáta í Vestmannaeyjum ein af níu stofnsveitum sambandsins.
Tveir hafa látist við störf Björgunarfélagsins, Kjartan Eggertsson HSV lést 20.júlí 1977 og Hannes Óskarsson HSV lést 21.janúar 1982.
Pelagusslysið
Hörmulegt slys varð á strandstað Belgíska togarans Pelagus 21. janúar 1982 er Hannes Óskarsson foringi björgunarveitar Hjálparsveitar skáta og Kristján K. Víkingsson læknir á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja fórust á strandstað ásamt tveimur skipverjum af Pelagusi, en björgunarsveitir úr Eyjum björguðu 6 skipverjum á land.
Foráttubrim var um nóttina þegar Pelagus strandaði skammt sunnan við Prestabót á Kirkjubæjarhrauninu. Hafði Pelagus verið í togi hjá öðrum Belga, en slitnaði taugin austan við Eyjar og strandaði togarinn um kl. 4 um nóttina.
Björgunarsveitir Björgunarfélags Vestmannaeyja, Hjálparsveitir skáta, slökkviliðsmenn og fleiri björguðu fjórum skipverjum af hvalbak skipsins skömmu eftir að skipið strandaði um nóttina, en einn skipverji fórst við skipshlið er reynt var að sjósetja gúmmíbjörgunarbát.
Þetta er í fyrsta skipti sem björgunarmenn við Ísland farast, en í þetta skipti eins og ótal mörg önnur hafa björgunarmenn lagt sig í mikla lífshættu við björgun mannslífa. Eyjamenn og aðrir landsmenn voru harmi slegnir eftir slys þetta.
Sameiningin
Hinn 21. mars 1992 voru Björgunarfélag Vestmannaeyja og Hjálparsveit skáta í Vestmannaeyjum, sameinuð í eitt björgunarfélag, sem hlaut nafnið Björgunarfélag Vestmannaeyja, og merki Hjálparsveitarinn varð merki þess. Aðsetur Björgunarfélagsins er nú á einum stað að Faxastíg 38.
Fyrstu stjórn hins nýja Björgunarfélags skipuðu: Bjarni Sighvatsson form. Grímur Guðnason varaformaður, Eiríkur Þorsteinsson gjaldkeri og Aðalsteinn Baldursson ritari.Meðstjórnendur voru kjörnir: Reynir Jóhannesson, Adólf Þórsson, Halldór Sveinsson og Jóhann Heiðmundsson.
Í núverandi stjórn eru: Arnór Arnórsson formaður, Arnar Ingi Ingimarsson varaformaður, Sigurður Þ. Jónsson gjaldkeri, Sindri Valtýsson ritari, meðstjórnandi Reynir Valtýsson og varamenn, Eyþór Þórðarson og Guðmundur Hafþór Björgvinsson.
Stöndum vörð um félagið
„Það er hverri byggð nauðsynlegt að hafa öflugt björgunarfélag. Ekki síst. þar sem sjósókn er mikil og hörð eins og hér í Eyjum. Þetta sáu stofnendur Björgunarfélags Vestmannaeyja fyrir 80 árum, löngu áður en aðrir landsmenn, að undanskildum séra Oddi V. Gíslasyni í Grindavík, sem var frumkvöðull slysavarna meðal sjómanna á öldinni sem leið.
Við skulum standa vörð um Björgunarfélag Vestmannaeyja, þakka því farsælt starf í 80 ár, og óska því gæfu á komandi árum,“ segir í Sjómannadagsblaðinu 1998.
Fleiri myndir úr safni félagsins:
Eins og fyrr segir þá fagnaði félagið 100 ára afmæli sínu þann 4. ágúst síðastliðinn eða á laugardagskvöldi Þjóðhátíðar. En þá eins og undanfarin ár þá var félagið í einu af sínum reglulegu verkefnum, að sjá um flugeldasýninguna á laugardagskvöldi Þjóðhátíðar. Í ár var því öllu til tjaldað í tilefni af afmælinu. Fyrir þá sem ekki áttu heimangengt í Dalinn má sjá flugeldasýninguna hér að neðan.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst