Liðin vika var með rólegra móti og engin alvarleg mál sem upp komu. Helgin fór ágætlega fram og fá útköll voru á veitingastaði bæjarins. Að vanda var eitthvað um að kvartað væri yfir hávaða frá heimahúsum, án þess þó að um eftirmála væri að ræða.
Lögreglu var í vikunni tilkynnt um að spreyjað hafi verið á einn vegg bílskúrs sem er við hús við Miðstræti og kom fljótlega í ljós að þarna höfðu börn verið að verki. Ekki liggja fyrir kærur vegna atviksins.
Alls liggja fyrir sjö kærur vegna brota á umferðarlögum eftir vikuna, sex vegna vanrækslu á að nota öryggisbelti í akstri og ein kæra vegna ólöglegrar lagningar. Eins og fram kom í tilkynningu frá lögreglu í síðustu viku, þá var lögreglan með átak í umferðarmálum og má segja að ökumenn hafi almenn verið til fyrirmyndar þó alltaf megi bæta aksturslag og lagningar ökutækja.
Lögreglan vill benda gangandi vegfarendum á að nota gangstéttar, þar sem þær eru til staðar, en þar sem ekki eru gangstéttar, skal ganga á móti umferð. Munið jafnframt eftir endurskinsmerkjunum.