Í gær var haldinn aðalfundur Vestmannaeyjadeildar Rauða krossins. Sigurður Ingi Ingason sem hefur gegnt formennsku félagsins undanfarin ár lét af störfum formanns og tekur Ólafur Jóhann Borgþórsson við sem formaður. Sigurður mun áfram eiga sæti í stjórn. Hann segir í samtali við Eyjafréttir að fundurinn hafi gengið venju samkvæmt.
„Venjuleg aðalfundarstörf, formaður fór yfir skýrslu stjórnar fyrir árið 2024 og fjárhagsáætlun ársins 2025 og gjaldkeri fór yfir ársreikning 2024.”
Ný stjórn var kosin á fundinum til tveggja ára. Hana skipa: Ólafur Jóhann Borgþórsson formaður, Björk Elíasdóttir gjaldkeri, Hugrún Magnúsdóttir ritari, Kári Bjarnason meðstjórnandi og Sigurður Ingason meðstjórnandi.
Varamenn í stjórn voru kosnir til eins árs, þau Sigmar Georgsson og Sara Jóhannsdóttir, og skoðunarmenn sömuleiðis kosnir til eins árs, Þórunn Jónsdóttir aðalmaður og Geir Jón Þórisson varamaður.
„Vestmannaeyjadeild Rauða krossins hefur í gegnum ár og áratugi reynst samfélaginu í Vestmannaeyjum mikill stuðningur þegar á hefur bjátað, sem reyndi auðvitað sérstaklega á í gosinu.
En þó við verðum vonandi laus við náttúruhamfarir þá er tilgangur og markmið Rauða krossins það sama að gegna stoðhlutverki við stjórnvöld á sviði mannúðarmála og þar eru neyðarvarnir, kennsla í skyndihjálp og ýmiskonar aðstoð við samfélagið allt.
Það er gott fólk í stjórninni og hafa sumir hverjir starfað fyrir Rauða krossinn um áratugaskeið. Það verður gaman starfa með þessum hópi og leggja samfélaginu lið hér í Eyjum,” segir Ólafur Jóhann, nýkjörinn formaður.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst