Um síðustu áramót urðu breytingar á fyrirkomulagi skimunar fyrir leghálskrabbameini meðal kvenna á Íslandi. Fljótt varð ljóst að eitthvað hafði farið úrskeiðis í því ferli. Eftir að hafa rannsakað málið og grandskoðað greip ég til þess ráðs að stofna umræðuhóp á fésbókinni þann 20. febrúar undir nafninu „Aðför að heilsu kvenna“. Hópurinn stækkaði hratt og telur í dag rösklega 18.000 manns. Mörg hafa lagt þessu mikilvæga verkefni lið á þeim tíma sem liðinn er , ríflega 160 manns voru t.d. saman á mynd í heilsíðu auglýsingu sem birtist m.a. þann 19. júní í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu undir kjörorðinu „Sýnin heim“. Í kjölfarið hófst mikil umfjöllun um málið í fjölmiðlum og manna á milli. Ráðamenn gáfufyrirheit um úrbætur. Þessi fyrirheit hafa því miður hingað til reynst innihaldslaus með öllu og enn bólar ekki á breytingum til batnaðar. Sjúkdómar herja á fólk allan ársins hring og meðhöndlun alvarlegra sjúkdóma þarf að hefjast svo skjótt sem verða má.
Ætla má að 25 – 30 þúsund konur nýti sér boð í skimun fyrir leghálskrabbameini á hverju ári. Margar þeirra eru í reglulegu eftirliti, áhættuhópum eða jafnvel með einkenni. Þjónusta við alla þessa hópa hefur verið meira og minna í lamasessi í 9 mánuði. Þegar best lét, áður en fyrr nefndar breytingar urðu, var biðtími eftir niðurstöðum 2 – 3 vikur. Þrátt fyrir að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins fullyrði á heimasíðu sinni að búið sé að koma öllum svörum í ferli nema þeim sem bárust á síðustu vikum er raunverulega staðan sú að fjöldi kvenna sem hafa farið í rannsóknir eða skimun vegna sjúkdómsins á árinu hafa enn ekki fengið sínar niðurstöður. Þetta staðfestir fjöldi kvenna í svörum við óformlegri könnun á stöðunni í hópnum „Aðför að heilsu kvenna“ um síðustu mánaðamót.
Óreiðan og glundroðinn sem hefur skapast í þessum málaflokki á árinu virðist engan enda ætla að taka. Fjöldi kvenna bíður eftir niðurstöðum og segja einnig frá því að þær eigi í vandkvæðum með að fá frekari rannsóknir þegar þess er þörf. Að búa við slíkt er óásættanlegt og rýrir þeirra lífsgæði verulega. Mikill árangur í að lækka tíðni leghálskrabbameins meðal íslenskra kvenna er kominn til vegna þess að greining á forstigseinkennum sjúkdómsins næst í tæka tíð svo að beita má meðferð til að koma í veg fyrir hann.
Skeytingarleysi stjórnvalda í þessum máli virðist engan enda ætla að taka. Núverandi ófremdarástand ógnar heilsu kvenna á Íslandi. Yfirlýsingar heilbrigðisráðherra í byrjun júlí um að breytingar verði gerðar um komandi áramót breyta engu þar um. Koma þarf á raunverulegum úrbótum á miðlun upplýsinga um niðurstöður og að það sé gert með þeim hætti að ekki valdi enn meiri óvissu og kvíða meðal skjólstæðinga heilbrigðiskerfisins. Þetta þarf að gera án tafar eins og búið er að krefjast mánuðum saman.
Erna Bjarnadóttir hagfræðingur
Höfundur skipar 2. Sæti á lista Miðflokksins í Suðurkjördæmi
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst