Seinni rauða viðvörunin tók gildi núna klukkan 8 á Suðurlandi og gildir hún til kl. 13.00 í dag. Farið er að hvessa verulega í Eyjum og má sjá á vindmælingum í Stórhöfða að vindstyrkur var að mælast nú á áttunda tímanum 28 m/s og mældist sterkasta hviðan 37 m/s.
Í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands frá því á sjöunda tímanum í morgun segir að sunnan illviðrið í gær hafi skilað sér vel í mæla. Frá því síðdegis og fram að miðnætti mældist rok eða verra (meðalvindur meiri en 24 m/s) á um 140 mælistöðvum og ofsaveður eða fárviðri (meðalvindur meiri en 28 m/s) á 62 mælistöðvum.
Vindhviðurnar voru einnig sterkar og mældist meira en 40 m/s í hviðum á 77 stöðvum! Ef til vill er það óvenjulegasta við þetta óveður hversu víða á landinu var að mælast hættulegur vindur. Sterkasta hviðan í gær mældist 66.3 m/s á Gagnheiði, sem er fjallastöð á Austurlandi, í 950 metra hæð yfir sjó og ein hæsta mælistöðin á landinu. Sterkasta hviða á láglendi var 62.3 m/s við Hvaldalsá austan Lónsfjarðar á suðausturhorni landsins. Þessi hviða mældist kl. 21, en þremur tímum seinna virðist vindmælirinn hafa brætt úr sér því frá miðnætti sendir hann bara logn, en vitað var að þá var ekki búið að lægja á þessu svæði. Næst sterkasta hviðan á láglendi var 58.1 m/s á Stafá, utarlega á Tröllaskaga. Þriðja sterkasta hviðan á láglendi var 54.0 m/s á Vattarnesi í sunnanverðu mynni Reyðarfjarðar.
Veðrinu í gær olli lægð fyrir vestan land, sem í samvinnu við hæð með mjög háum þrýstingi yfir Bretlandi myndaði gríðarlegan sunnan vindstreng yfir landinu. Í nótt fór lægðin hratt til norðurs of fjarlægðist okkur. Þegar líða tók á nóttina hafði dregið verulega úr vindi á landinu og fyrri kafla óveðursins þar með lokið.
Nú þegar þetta er skrifað nálgast okkur óðfluga önnur lægð úr suðri, sem í dag veldur seinni helmingnum af óveðrinu. Yfir vestasta hluta landsins er spáð skörpum veðraskilum fyrripartinn í dag. Vestan þeirra er hægur vindur, kalt og snjókoma. Vestfirðir og stór hluti Breiðafjarðar verður væntanlega á því svæði. Austan megin við skilin er hins vegar sunnan illviðrið sem mun geisa á stærstum hluta landsins. Af þessu má ráða að staðan á vesturhluta landsins er óvenju viðkvæm, því ef staðsetning skilanna verður aðeins frábrugðin því sem spárnar segja, getur það haft þá þýðingu að veðrið verður mjög ólíkt því sem ætlað var.
Síðdegis í dag gera spárnar ákveðið ráð fyrir að skilin færist til austurs. Á vesturhluta landsins tekur við suðvestan strekkingur eða allhvass með éljum og kólnandi veðri. Sunnan illviðrið lægir seinast á Austfjörðum, ekki fyrr en um kvöldmatarleytið á þeim slóðum, segir í hugleiðingunum sem skrifaðar voru klukkan 06.21 í morgun.
Hér má sjá veðrið fara yfir á gagnvirku korti.
Veðurathuganir á Stórhöfða í morgun:
Tími | Vindur | Mesti vindur / hviða | Hiti | Raka- stig |
---|---|---|---|---|
Fim 06.02 kl. 08:00 |
![]() |
28 m/s / 37 m/s | 8,4 °C | 97 % |
Fim 06.02 kl. 07:00 |
![]() |
28 m/s / 34 m/s | 8,3 °C | 100 % |
Fim 06.02 kl. 06:00 |
![]() |
21 m/s / 28 m/s | 8,2 °C | 100 % |
Fim 06.02 kl. 05:00 |
![]() |
15 m/s / 17 m/s | 4,6 °C | 97 % |
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst