Róbert Aron Hostert hefur snúið aftur til ÍBV eftir tveggja ára fjarveru í Danmörku. Koma Róberts er hvalreki fyrir ÍBV en hann spilaði með ÍBV þegar liðið varð Íslandsmeistari árið 2014. �?á var Róbert valinn besti leikmaður deildarinnar og einnig átti hann frábæra leiki í úrslitakeppninni.
Róbert er í miklum metum hjá ÍBV þar sem hann var besti leikmaður liðsins, eina tímabilið þar sem liðið hampaði titlinum. Samið var við Róbert í Eldheimum en hér á eftir má sjá mynd frá undirskriftinni sem fór fram rétt í þessu. Samningurinn hljóðar upp á þrjú ár.
Lið ÍBV styrkist gríðarlega með komu Róberts sem náði ekki alveg að festa sig í sessi í Danmörku en hann ætlaði sér líklega ekki að snúa aftur til Íslands eftir svo stuttan tíma.
ÍBV á leik við Hauka í undanúrslitum Íslandsmótsins á morgun en leikurinn hefst klukkan 18:15. Tapi ÍBV er liðið komið í sumarfrí en fari svo að ÍBV sigri eru þeir enn í séns um að koma sér í úrslitaeinvígið. Kári Kristján Kristjánsson mun ekki leika með liðinu sökum leikbanns en óvíst er með þátttöku Magnúsar Stefánssonar í leiknum, sökum meiðsla.