Afinn og sonardóttirin brúa kynslóðabilið
„Nokkrar af þessum sögum áttu að koma í Vestmannaeyjabókinni en hún var orðinn svo stór og mikil að við Guðjón Ingi hjá Hólaútgáfunni urðum ásáttir um að sleppa smásögunum. Þar lágu þær þar til sonardóttir mín, Katrín Hersisdóttir, fékk veður af þeim og spurði hvort ég ætlaði ekki að gefa út eina bók til viðbótar? Hún var að ljúka námi í samskiptahönnun í Danmörku og vildi myndlýsa bókina eins og það heitir í dag,“ segir Sigurgeir Jónsson í Gvendarhúsi en oft kenndur við Þorlaugargerði.
„Það endaði með því að ég tók saman nokkrar smásögur sem ég átti. Bætti einni við, sögu sem ég þýddi eftir rithöfundinn og stjórnmálamanninn Jeffrey Archer sem er í miklu uppáhaldi hjá mér. Hann er með lávarðstign og fyrrverandi varaformaður breska Íhaldsflokksins. Algjör snillingur í smásagnagerð sem eiga það sameiginlegt að hafa óvæntan endi. Notaði þær þegar ég var að kenna ensku uppi í Framhaldsskóla og voru nemendurnir mjög hrifnir.
Ég hafði samband við Archer og spurði hvort ég mætti ekki hafa söguna með í safninu honum til heiðurs og var það auðsótt mál,“ segir Sigurgeir um bókina sem fékk nafnið, Fyrir afa, nokkrar smásögur. Hitt eru sögur frá ýmsum tímabilum og sú elsta frá því fyrir gos en hinar eru nýrri af nálinni.
Saga úr daglega lífinu
„Tilurð fyrstu sögunnar er að ég var að labba niðri í bæ, rétt fyrir gos. Sá að utan við Apótekið var ungur nemandi minn úr Barnaskólanum. Ég stóð á bak við vegg og fylgdist með strákum sem voru að kaupa spritt fyrir pabba hans. Það fékk svo á mig að sjá þetta að úr varð smásaga. Hinar eru af ýmsum toga. Tvær svona hálfgerðar draugasögur sem komu í jólablaði Eyjablaðsins hjá Svenna Tomm vini mínum. Hinar eru svo nýrri af nálinni, ýmist sögur sem byggjast á atburðum sem ég eða aðrir hafa upplifað eða hreinn heilaspuni frá sjálfum mér.“
Sigurgeir skrifaði og Katrín myndlýsti. „Þetta var lokaverkefnið hennar í skólanum og vinnuheitið var, Fyrir afa. Guðjón Ingi var svo hrifinn af nafninu að hann heimtaði að bókin yrði látin heita Fyrir afa nokkrar smásögur.“
Fyrir afa er 14. bók Sigurgeirs en flestar hafa þær fjallað um Vestmannaeyjar, mannlíf og félagslíf, siði, hætti og viðburði. „Sumar sögurnar í nýju bókinni gerast í Vestmannaeyjum. Að öðru leyti eiga þær ekkert skylt við fyrri bækur og ég er sáttur að láta nú staðar numið. Ætlaði að stoppa á þessum tveimur barnabókum sem ég sendi frá mér síðast. Þegar svo sonardóttirin vildi að ég gæfi út eina í viðbót lét ég undan. Held þó að nú sé kominn tími til að setja punktinn. Þegar maður er kominn á þennan aldur er það bara eðlilegt. Það er helst að barnabörnin hafi rekið á eftir manni, vilja sjá bók fyrir hver jól.“
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst