Farið er að hitna í kolunum í stjórnmálunum nú þegar fjórir dagar eru til kosninga til Alþingis, nk. laugardag, 30. nóvember. Framboðin reyna að þétta raðir síns fólks og ná til þeirra sem enn hafa ekki ákveðið hvað skal kjósa. Hafa fulltrúar þeirra heimsótt Vestmannaeyjar þessa dagana.
Í gær mættu sjálfstæðismennirnir, Brynjar Níelsson, frambjóðandi í Reykjavík norður og Jón Gunnarsson sem býður sig fram í Kraganum í Ásgarð og hvöttu fólk til dáða. Gísli Stefánsson, fjórði maður á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi var ánægður með heimsóknina. „Styrkur Brynjars og Jóns er að þeir kjarna svo vel stefnu Sjálfstæðisflokksins. Það er tryggur hópur sem mætir og þeir halda manni á tánum,“ segir Gísli sem er bjartsýnn þó á brattann sé að sækja hjá flokknum.
„Menn eins og þeir félagar liggja ekki á skoðunum sínum og minna á hvað við sjálfstæðismenn stöndum fyrir. Koma inn með góðan kraft og bjartsýni í baráttuna. Það er einmitt það sem við erum að gera í okkar vinnu á lokasprettinum. Förum út, hittum fólk og eftir að hafa farið um allt kjördæmið er ég bjartsýnn. Er sannfærður um að við höldum okkar þremur þingmönnum í Suðurkjördæmi. Auðvitað kostar það mikla vinnu en með sameiginlegu átaki okkar allra tekst það. Sjálfstæðisflokkurinn er bestur í brekku,“ segir Gísli að endingu.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst